Samstarf Lífvísindaseturs við Pavol Jozef Safarik háskólann í Kosice í Slóvakíu
Í gegnum Uppbyggingasjóð EES (EEA Grants) fékkst styrkur til samstarfs milli Lífvísindaseturs Háskóla Íslands og Pavol Jozef Safarik háskólann í Kosice í Slóvakíu haustið 2023 til sameiginlegra fundarhalda sem vonast er til að geti ýtt undir enn frekara samstarf á milli stofnananna á sviði lífvísinda í náinni framtíð. Stuðningurinn sem Háskóli Íslands fær í gegnum þetta samstarf eru 26.570 evrur (4 milljónir króna). Heiti verkefnisins er: Bilateral relations and common knowledge between Slovakia and Iceland research at Universities on the topic of “Genomic instability and cancer; GenICa.
Samstarfið hófst með rafrænum kynningarfundi frá Pavol Jozef Safarik háskólanum í nóvember á starfsemi háskólans á sviði lífvísinda og helstu rannsóknaáherslum. Lífvísindasetur Háskóla Íslands var síðan með sambærilega rafræna kynningu í janúar á kjarnainnviðum í lífvísindum og helstu rannsóknaáherslum. Á bilinu 20-30 manns sóttu báða fundina frá báðum stofnunum. Ljóst er að nú þegar hafa myndast tengsl á milli stofnanna sem líkleg eru til að leiða til áframhaldandi samstarfs.
Fyrirhugaðir eru vinnufundir og sameiginleg ráðstefna fyrir framhaldsnemendur í maí og júní. Hópur vísindamanna frá Pavol Jozef Safarik háskólanum heimsækir Háskóla Íslands vikuna 21.-24. maí. Í upphafi ferðar verður sameiginlegur samráðsfundur á Litla torgi og í framhaldinu munu gestirnir heimsækja nokkrar starfsstöðvar Lífvísindasetur sem staðsettar eru á Sturlugötu 8, í Læknagarði, á Ónæmisfræðideild Landspítala og á Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum.
Vikuna 17.-23. júní mun svo hópur vísindamanna og doktorsnema frá Háskóla Íslands heimsækja Pavol Jozef Safarik háskólann í Kosice í Slóvakíu, en hluti af ferðinni fer í nemendaráðstefnu sem haldin verður í Stará Lesná, High Tatras í Slóvakíu dagana 19.-21. júní. Þar munu doktorsnemendur og nýdoktorar frá báðum háskólum kynna rannsóknir sínar auk þess sem vísindamenn halda yfirlitserindi. Alls munu 40 manns frá báðum háskólum sækja ráðstefnuna, þar af 12 þátttakendur frá Háskóla Íslands sem koma frá Lífvísindasetri, Læknadeild og Lyfjafræðideild Háskóla Íslands.
Þess má geta að núna er Pavol Jozef Safarik háskólinn í Slóvakíu með aukaaðild að Aurora samstarfinu.