
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Þorvaldur H. Gissurarson, forstjóri ÞG verks, undirrituðu í dag samning um uppsteypu og frágang á nýju húsi Heilbrigðisvísindasviðs sem rísa mun á Landspítalalóðinni. Áætlað er að nýtt hús og endurbættur Læknagarður muni hýsa stóran hluta af starfsemi sviðsins og að framkvæmdir taki alls um fimm ár.
ÞG verk átti lægsta tilboð í útboði verksins sem fram fór fyrr á þessu ári. Útboðið var í höndum Nýs Landspítala þar sem uppbyggingin er hluti af allsherjaruppbyggingu á Landspítalasvæðinu sem nú stendur yfir. Nýtt hús Heilbrigðisvísindasviðs er afrakstur áralangrar þróunar og vinnu innan og utan HÍ með það að markmiði efla kennslu, rannsóknir og nýsköpun á sviði heilbrigðisvísinda í nánu samstarfi við Landspítala. Heilbrigðisvísindasvið gegnir enda lykilhlutverki í menntun heilbrigðisstétta á Íslandi og rannsóknum tengdum heilsu þjóðarinnar.
Skóflustunga að húsinu, sem rísa mun austan við Læknagarð og tengjast honum, var tekin fyrir tæpu ári og jarðvinnu við nýbygginguna hefur miðað vel. Breytingar hafa hins vegar orðið á hönnunarforsendum sem þýðir að heildarstærð hins nýja og breytta húss Heilbrigðisvísindasviðs verður samanlagt um 20.200 fermetrar. Þar af er nýbyggingin um 11.300 fermetrar og lýkur fullnaðarhönnun hennar nú í haust. Áætlað er að endurhönnun á Læknagarði ljúki nóvember.
Stefnt er að því að uppsteypu og ytri frágangi á nýbyggingunni ljúki sumarið 2026 og gert er ráð fyrir að hægt verði að flytja inn í hana á fyrri helmingi ársins 2028. Endurbætur í Læknagarði hefjast í framhaldinu og áætlað er að þeim ljúki á árinu 2029. Allar tímasetningar eru með fyrirvara um fjárheimildir og þátttöku í útboðum. Við þetta má bæta að nýbyggingin verður umhverfisvottuð samkvæmt BREEAM-staðlinum líkt og aðrar nýbyggingar á Landspítalasvæðinu við Hringbraut.