
Augnlyfjaþróunarfyrirtækið Oculis, sem er eitt af sprotafyrirtækjum HÍ, var formlega skráð á Aðalmarkað Nasdaq Iceland, íslensku kauphöllina, þriðjudaginn 23. apríl. Lausnir fyrirtækisins byggjast á áratugarannsóknum Einars Stefánssonar, prófessors emeritus í augnlækningum, og Þorsteins Loftssonar, prófessors emeritus í lyfjafræði, og samstarfsfólks þeirra. Ár er síðan fyrirtækið var skráð á markað í Bandaríkjunum, fyrst sprotafyrirtækja Hákólans.
Uppfinning vísindamannanna tveggja snýst um þróun augndropa sem útrýmir sprautunálum. Svokallaðar nanóagnir úr sýklódextrínum hafa verið þróaðar til að ferja lyf við augnsjúkdómum í augndropunum frá yfirborði augans til bakhluta þess. Samhliða því hefur verið unnt að hætta að sprauta lyfinu í augað.
„Þannig að það að geta gefið lyf með þessum sjúkdómum með augndropum í stað þess að gera það með því að sprauta lyfjunum inn í augað með sprautunál, það sáum við sem mikilvægt markmið og lögðum af stað með því að þróa tækni til að geta gert það,“ sagði Einar í samtali við RÚV þegar viðskipti hófust með bréf í Oculis. Þetta átti ekki að vera fræðilega mögulegt en þeir Þorsteinn og Einar hafa nú sannað hið gagnstæða og komust þeir m.a. í úrslit Evrópsku uppfinningaverðlaunanna fyrir lausnina í fyrra.