Oculis skráð á Aðalmarkað íslensku kauphallarinnar
Augnlyfjaþróunarfyrirtækið Oculis, sem er eitt af sprotafyrirtækjum HÍ, var formlega skráð á Aðalmarkað Nasdaq Iceland, íslensku kauphöllina, þriðjudaginn 23. apríl. Lausnir fyrirtækisins byggjast á áratugarannsóknum Einars Stefánssonar, prófessors emeritus í augnlækningum, og Þorsteins Loftssonar, prófessors emeritus í lyfjafræði, og samstarfsfólks þeirra. Ár er síðan fyrirtækið var skráð á markað í Bandaríkjunum, fyrst sprotafyrirtækja Hákólans.
Uppfinning vísindamannanna tveggja snýst um þróun augndropa sem útrýmir sprautunálum. Svokallaðar nanóagnir úr sýklódextrínum hafa verið þróaðar til að ferja lyf við augnsjúkdómum í augndropunum frá yfirborði augans til bakhluta þess. Samhliða því hefur verið unnt að hætta að sprauta lyfinu í augað.
„Þannig að það að geta gefið lyf með þessum sjúkdómum með augndropum í stað þess að gera það með því að sprauta lyfjunum inn í augað með sprautunál, það sáum við sem mikilvægt markmið og lögðum af stað með því að þróa tækni til að geta gert það,“ sagði Einar í samtali við RÚV þegar viðskipti hófust með bréf í Oculis. Þetta átti ekki að vera fræðilega mögulegt en þeir Þorsteinn og Einar hafa nú sannað hið gagnstæða og komust þeir m.a. í úrslit Evrópsku uppfinningaverðlaunanna fyrir lausnina í fyrra.
Jón Atli Benediktsson og Einar Stefánsson í íslensku kauphöllinni við opnun markaða 23. apríl.
Nokkur byltingarkennd augnlyf í þróun
Fram kemur í fjárfestatilkynningu til íslensku kauphallarinnar að Oculis sé með lyf í þróun sem geta haft byltingarkennd áhrif. „Þar á meðal er OCS-01, augndropar byggðir á Optireach® tækni félagsins. Klínískar rannsóknir á OCS-01 hafa m.a. sýnt verulegan árangur í meðferð á sjónhimnubjúg vegna sykursýki. Þá er félagið með lyfið OCS-02 í klíniskum prófunum en það eru augndropar sem innihalda TNF-hamlara líttæknilyf, sem verka gegn augnþurrki og bólgum í yfirborði augans. Loks má nefna lyfið OCS-05, sem bundnar eru vonir við að geti hjálpað til við meðhöndlun á hrörnun eða rýrnun taugavefs í auga sem tengist sjúkdómum eins og sjóntaugarbólgu. Markmið Oculis er að bæta heilsu og lífsgæði sjúklinga um allan heim með því að þróa lyf sem bæta sjón og augnheilsu,“ segir enn fremur í fjárfestatilkynningu til kauphallarinnar.
Í fjárfestatilkynningunni er enn fremur haft eftir forstjóra Oculis, Riad Sherif, að það sé afar ánægjulegt fyrirtækið, sem á rætur sínar að rekja til íslensks hugvits, sé núna tvískráð á Íslandi og í Bandaríkjunum. „Við erum afar þakklát fyrir þann mikla áhuga sem fjárfestar hafa sýnt félaginu en skráningin hér styður vel við framtíðaráform okkar um að bæta meðferð alvarlegra augnsjúkdóma. Við bjóðum nýja hluthafa velkomna og hlökkum til að vinna með þeim fram veginn.“
Í frétt RÚV um skráninguna er bent á að Oculis sé afrakstur nýsköpunarstarfs innan Háskóla Íslands. Innan skólans sé sjóður sem fjárfesti í sprotafyrirtækjum og að óhætt sé að fullyrða að Oculis sé ein ábatasamasta fjárfestingin til þessa. „Þetta er fyrsta fyrirtækið sem kemur, fyrir utan Marel sem kom á sínum tíma út úr Raunvísindastofnun háskólans, á íslenska markaðinn eiginlega beint út úr háskólanum,“ er haft eftir Jóni Atla Benediktssyni, rektor HÍ, við þessi ánægjulegu tímamót.
Einar Stefánsson hringir bjöllunni í íslensku kauphöllinni við upphaf viðskipta með bréf Oculis að viðstöddum fulltrúum fyrirtækisins og kauphallarinnar. MYND/Kauphöllin