Íslenska líftæknifyrirtækið Ternaria Biosciences, sem sérhæfir sig í þróun og framleiðslu á hágæða mRNA og var stofnað af tveimur prófessorum við Læknadeild við þriðja mann, hefur hlotið styrk úr Women Tech EU áætlun Evrópusambandsins.
Sjóður þessi styrkir fyrirtæki sem byggja á djúptæknilausnum og eru leidd af konum. Ternaria Biosciences hefur þróað ný ensím fyrir mRNA-framleiðslu með því að nota gervigreind ásamt tilraunum á rannsóknarstofu. Styrkurinn er veittur til áframhaldandi þróunar þessarar tækni.
„Styrkurinn veitir okkur aðgang að frumkvöðlaumhverfi Evrópusambandsins hvað varðar tengingu við önnur fyrirtæki og við fjárfesta. Hann er þó ekki síst viðurkenning á tækni fyrirtækisins en af yfir 1100 umsóknum í Women Tech EU voru eingöngu 40 styrktar. Því var úthlutunarhlutfallið 3,5% og erum við því býsna stolt að hafa hlotið brautargengi,“ segir Margrét Helga Ögmundsdóttir, framkvæmdastjóri og einn af stofnendum Ternaria Biosciences.
Margrét og Eiríkur Steingrímsson, sem bæði eru prófessorar við Háskóla Íslands, stofnuðu Ternaria Biosciences ásamt Steingrími Stefánssyni lífefnafræðingi árið 2021. Hugmyndin varð til í Covid-19-faraldrinum þegar fyrstu mRNA-lyfin komu á markað og ljóst varð að von væri á byltingu hvað varðar bóluefni og einstaklingsmiðuð lyf. Þetta hefur orðið raunin og eru fjölmörg mRNA-lyf í klínískum tilraunum. Má þar sérstaklega nefna einstaklingsmiðaðar meðferðir við krabbameinum. Auk þess eru miklir möguleikar á hagnýtingu mRNA þegar kemur að landbúnaði og fiskeldi.
Ternaria hefur þróað nýja tækni fyrir framleiðslu á hágæða mRNA. Við nýtingu mRNA í lyfjum eru gæðin lykilatriði til þess að hámarka virkni en lágmarka aukaverkanir. Fyrirtækið hefur þróað ensím og framleiðslutækni á mRNA sem hefur slíka eiginleika. „Fyrirtækið hefur þegar sett fyrstu ensímin á markað og við finnum gríðarlega góð viðbrögð. Auk þess framleiðum við mRNA með ensímum okkar. Við erum nú að vinna í að skala upp framleiðsluna vegna þessara góðu viðbragða,“ segir Margrét.