Læknanemi tilnefndur til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands
Nemendur við Háskóla Íslands koma að fimm af þeim sex verkefnum sem tilnefnd eru til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands sem afhent verða við hátíðlega athöfn á Bessastöðum 30. janúar næstkomandi. Verkefnin eru á fjölbreyttum fræðasviðum innan skólans.
Fram kemur á vef Rannís, þar sem tilkynnt var um tilnefningarnar, að verðlaunin séu veitt þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefna sem Nýsköpunarsjóður námsmanna styrkti árið 2024. Alls fengu hátt í 100 verkefni styrk úr sjóðnum í fyrra og velur stjórn hans 10 verkefni sem úrvalsverkefni. Af þeim eru svo 4-6 verkefni valin sem öndvegisverkefni og hljóta þau tilnefningu til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands.
Lífupplýsingafræðileg greining á kælisvari frumna
Sem fyrr segir eru sex verkefni tilnefnd í ár þar af var eitt unnið af nemanda af Heilbrigðisvísindasviði. Það var verkefni sem Valdimar Sveinsson, læknanemi við Háskóla Íslands, vann undir leiðsögn Kimberley Anderson rannsóknarstofustjóra og Hans Tómasar Björnssonar, prófessors við Læknadeild.
Verkefni Valdimars:
Tímabundinn súrefnisskortur í heila getur valdið langvarandi taugaskaða. Marksækin hitastýring (e. targeted temperature management) er inngrip sem felst í því að lækka líkamshitastig sjúklinga niður í væga ofkælingu (32-35°C) til að vernda heilann eftir súrefnisskort. Væg ofkæling virkjar taugaverndandi viðbragð í heilanum og gerir hann þannig þolnari fyrir súrefnisskorti. Vandamálið við marksækna hitastýringu er að hún hefur í för með sér alvarlegar aukaverkanir. Markmið verkefnisins var að kortleggja þætti sem gegna lykilhlutverki í væga ofkælingarviðbragðinu svo unnt verði að virkja viðbragðið með lyfjum í stað ofkælingar.
Í dag hafa fimm þættir verið staðfestir sem hlutar af væga ofkælingaviðbragðinu og hafa aðstandendur verkefnisins uppgötvað eitt lyf sem virðist virkja ferilinn en verkunarhátturinn er óljós. Í verkefninu var þróuð lífupplýsingafræðileg greining sem nýtir opinber RNA-raðgreiningargögn frá alþjóðlegum gagnasöfnum. Greiningaraðferðin getur nýst til að svara ýmsum öðrum spurningum með því að nýta fyrirliggjandi rannsóknargögn og spara þannig bæði tíma og kostnað áður en lengra er haldið í frekari tilraunum. Með þessu móti má flýta uppgötvunum og draga úr þörf fyrir dýrarannsóknir.
Niðurstöður eru afar lofandi og benda til þess að þættir sem miðla m6A-breytingum á mRNA-umritum gegni lykilhlutverki í stjórnun kælisvarsins en þessu hefur ekki verið lýst áður. Það sem meira er, lyf sem áður fannst í lyfjaskimun, virðist virkja þetta sama svar. Rannsóknir virðast styðja að verkunarháttur lyfsins gæti grundvallast á m6A-breytingum. Þessar niðurstöður opna því á möguleikann að færa þetta lyf í dýratilraunir og síðan í klínískar prófanir á mönnum.
Nemendur við Háskóla Íslands koma að fimm af þeim sex verkefnum sem tilnefnd eru til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands sem afhent verða við hátíðlega athöfn á Bessastöðum 30. janúar næstkomandi. MYND/Kristinn Ingvarsson