Header Paragraph

Kraumandi suðupottur heilbrigðisvísinda á vel sóttri ráðstefnu

Image
22. Líf- og heilbrigðisvísindaráðstefna HÍ 2024

Á 22. Líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnu HÍ sem haldin var á Hilton hótelinu 14. og 15. október voru haldin 134 erindi um allt það nýjasta í líf- og heilbrigðisvísindum á Íslandi. Þá var boðið upp á fjölda veggspjalda kynninga sem voru vel sóttar. Fjallað var um spennandi rannsóknir af mörgum fræðasviðum, til dæmis meðgöngu og fæðingu, andlega heilsu, íþróttir, næringu, lyfjafræði, lífvirkni, heilbrigðisþjónustu, sameindalíffræði, ónæmisfræði, erfðafræði og endurhæfingu. Nokkur hundruð manns sóttu ráðstefnuna þessa tvo daga.
 

Falsupplýsingar og upplýsingaóreiða vaxandi vandamál

Það var Unnur Anna  Valdimarsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs, sem setti þessa 22. Líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnu Háskóla Íslands með eftirfarandi orðum:

Ráðstefna í Líf- og heilbrigðisvísindum er fyrir löngu orðin fastur liður í starfi Heilbrigðisvísindasviðs en á næstu dögum munum við geta kynnt okkur nálgun og niðurstöður um 200 verkefna á sviðinu sem öll hafa skírskotun í mikilvæg viðfangsefni á sviði líf- og heilbrigðisvísinda. Hér má nefna dæmi um fjöllyfjanotkun, lestrarerfiðleika barna, mýtur í mataræði, bólusetningarhik, greiningu og meðferð krabbameins, og notkun gervigreindar í rannsóknum, en allt eru þetta málefni sem undanfarið hafa verið mikið rædd í okkar samfélagi.

Það krefst mikils tilkostnaðar, bæði í vinnuframlagi og fjármunum, að halda slíka ráðstefnu og við tökum frá tíma í okkar þéttu dagskrá til að taka þátt. Því má spyrja: Af hverju erum við eiginlega að þessu? 

Svarið er að við þurfum þennan vettvang til að „besta“ vísindastarf okkar, þjálfa ungt vísindafólk í því að kynna sínar rannsóknir og taka við gagnrýni, efla tengsl og samstarf innan sviðsins, og síðast en ekki síst að miðla nýrri þekkingu til samfélagsins.

Falsupplýsingar og upplýsingaóreiða er vaxandi vandamál í okkar samfélagi, og náði nýjum hæðum í heimsfaraldri COVID-19.  Slík óreiða hefur, eins og kunnugt er, afvegaleitt niðurstöður lýðræðislegra kosninga, en á heilbrigðissviði er hún beinlínís ógn við líf og lýðheilsu. 

Börn og ungt fólk er sérstaklega berskjaldað fyrir falsupplýsingum á samfélagsmiðlum en þar setja ýmsir áhrifavaldar fram sterkar staðhæfingar um meinta gagnsemi ýmissa lífsstílsíhlutana og áróður gegn gagnreyndri heilbrigðisþjónustu. Hér má nefna áróður um hollustu kjötáts (skv. carnivore mataræði), áróður gegn bólusetningum og gagnreyndri meðgöngu- og fæðingaraðstoð, og ýmiss gylliboð um betri heilsu og líðan sem markaðsöfl streyma kerfisbundið til fólks í viðkvæmri stöðu.

Hér höfum við vísindasamfélagið mikilvægu hlutverki að gegna, og verðum að taka það hlutverk alvarlega. Þessi ráðstefna er mikilvægur liður í því, og við erum með fleiri viðburði og úrræði á prjónunum til að virkja þetta samtal við samfélagið og veita þessum falsfréttum viðnám.

Þetta samtal er einnig mikilvægt til að almenningur og yfirvöld skilji mikilvægi okkar – en eins og margoft hefur komið fram er íslenskt háskólakerfi stórlega vanfjármagnað og enn og aftur eru framlög ríkisins til grunnvísinda skert í tillögum til fjárlaga 2025. Við megum til að vinda ofan af þessari þróun – og það gerum við best með því að kynna vísindin okkar.

Text

„Falsupplýsingar og upplýsingaóreiða er vaxandi vandamál í okkar samfélagi, og náði nýjum hæðum í heimsfaraldri COVID-19.  Slík óreiða hefur, eins og kunnugt er, afvegaleitt niðurstöður lýðræðislegra kosninga, en á heilbrigðissviði er hún beinlínís ógn við líf og lýðheilsu," sagði Unnur Anna Valdimarsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs, m.a. í setningarræðu sinni.

Image
Image
Unnur Anna Valdimarsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs

Óhætt er að segja að vel hafi tekist til með ráðstefnuna sem var líkt og kraumandi suðupunktur spennandi vísinda þar sem mörg hundruð manns mættu til að hlýða á það nýjasta í heilbrigðisvísindum. Í lok ráðstefnunnar voru þremur ungum vísindamönnum veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi kynningar á áhugaverðum rannsóknarverkefnum.

 

Verðlaunahafar á ráðstefnunni
 

Arna Garðarsdóttir 
Vísindamaður sem hlýtur viðurkenningu fyrir fyrirlestur/verkefni um heilsueflingu og fyrirbyggingu.

Arna Garðarsdóttir starfar sem skólahjúkrunarfræðingur við Menntaskólann í Reykjavík og er doktorsnemi við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild. Verkefnið sem hún kynnti beinist að þróun matstækisins HEILUNG sem var þróað fyrir skólahjúkrunarfræðinga til að meta og efla heilsu ungs fólks (16-19 ára). Matstækinu getur orðið mikilvægt framlag til heilsueflingar meðal þessa viðkvæma en jafnframt mikilvæga hóps. Á tímum sem þessum þar sem ungt fólk er berskjaldað fyrir upplýsingaóreiðu er mikilvægt að styðja við þetta verkefni. Ungt fólk kallar eftir góðri og staðreyndri upplýsingagjöf.
 

Bergrún Ásbjörnsdóttir
Bergrún hlaut verðlaun úr Styrktarsjóði Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði en tilgangur sjóðsins er að verðlauna besta vísindalega framlag ungs vísindamanns á sviði lyfja- og eiturefnafræði í víðustu merkingu, svo sem grunnrannsóknum eða klínískum rannsóknum sem aukið geta skilning á lyfjaverkun, aukaverkunum, nýjum lyfjamörkum, faraldsfræði lyfja eða lyfjaþróun. Fyrirlestur/verkefni Bergrúnar bar heitið: The effects of cisplatin treatment on normal colorectal epithelial cells. 

Í verkefninu beitir Bergrún háþróuðum aðferðum til að mæla áhrif krabbameinslyfsins Cisplatin á erfðaefni stofnfruma í þekju ristilsins. Í þessu spennandi doktorsverkefni Bergrúnar eru hún að skoða þekjufrumur úr þekju ristilsins hjá einstaklingum sem fengu krabbmeinsmeðferð vegna eistnakrabbameins mörgum árum fyrr. Bergrún sýndi með sannfærandi gögnum hvernig krabbameinsmeðferðin jók stórlega magn stökkbreytinga en slíkar stökkbreytingar eru forsenda krabbameinsþróunar. Þannig má nefna að einn meðferðarhringur af Cisplatíni ók tíðni slíkra stökkbreytinga sem að jafnaði myndi taka 16 ár að safnast upp við venjulegar kringumstæður. Rannsókn hennar varpar nýju ljósi á áhrif krabbameinslyfja á eðlilegar frumur líkamans.
 

Sana Gadiwalla
Sana hlaut Hvatningarverðlaun Jóhanns Axelssonar prófessors en verðlaunin eru veitt af Félagi íslenskra lífeðlisfræðinga til ungs og efnilegs vísindamanns vegna verkefnis á sviði lífeðlisfræði eða skyldra greina.

Fyrirlestur/verkefni Sana bar heitið: Investigating Mitf’s (microphthalmia-associated transcription factor) role in the regulation of neural activity in murine olfactory bulb.

Verkefnið er á sviði taugalífeðlisfræði og snýst um mikilvægi sveigjanleika taugafrumna (neuroplasticity) fyrir nám og minni og í taugasjúkdómum eins og flogaveiki og taugahrörnun, svo og í taugafrumuvirkni, sem hjálpar til við að halda heilarásum í réttri virkni. Rannsóknir Sana hafa leitt í ljós að prótein sem kallast microphthalmia-associated transcription factor (Mitf) gegnir lykilhlutverki í að stjórna þessari virkni í taugafruma (projection neurons) í lyktarskynfærum músa og manna. Verkefnið er unnið undir leiðsögn prófessors Pétur Henry Péturssonar og er unnið í samvinnu við Háskólann í Cambridge á Englandi.

Verðlaunahöfum er öllum óskað innilega til hamingju með frábærar kynningar á einkar spennandi rannsóknarverkefnum.