Kirstine Nolling Jensen varði doktorsritgerð í líf- og læknavísindum
Mánudaginn 3. júlí 2023 ver Kirstine Nolling Jensen doktorsritgerð sína í líf- og læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Ómega-3 fjölómettaðar fitusýrur auka hjöðnun bólgu og hafa áhrif á náttúrulegar drápsfrumur. Omega-3 polyunsaturated fatty acids promote inflammation resolution and affect natural killer cells.
Andmælendur eru dr. Magnus Bäck, prófessor við Karolinska Institutet, Stokkhólmi, og dr. Marit Inngjerdingen, rannsóknarsérfræðingur við Háskólasjúkrahúsið í Ósló.
Umsjónarkennari og leiðbeinandi var Jóna Freysdóttir, prófessor og leiðbeinandi var Ingibjörg Harðardóttir, prófessor. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Ingileif Jónsdóttir, prófessor við Læknadeild, Benedict Chambers, dósent við Karolinska Institutet, og Martin Giera, dósent við University of Leiden.
Dr. Björn Rúnar Lúðvíksson, prófessor við Læknadeild, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 10.00.
Ágrip
Þótt bólga sé nauðsynlegt og gagnlegt ferli er langvarandi bólga talin eiga þátt í allt að helmingi dauðsfalla vegna sjúkdóma í heiminum. Bólguhjöðnun er ferli sem er vel stjórnað og er m.a. miðlað af bólguhjöðnunarboðefnum sem eru upprunnin úr ómega-3 fjölómettuðum fitusýrum (FÓFS). Fyrri niðurstöður rannsóknarhópsins sýna að ómega-3 FÓFS í fæði músa ýta undir bólguhjöðnun. Auk þess sýndu þær að náttúrulegar drápsfrumur (NK frumur) eru nauðsynlegar fyrir bólguhjöðnun. Þó er lítið vitað um áhrif ómega-3 FÓFS á íferð NK frumna á bólgustað og hvernig þær geta miðlað bólguhjöðnun. Í þessari rannsókn var músum gefið fóður með eða án fiskolíu og vaka-miðluð bólga mynduð. Fiskolían ýtti undir mörg kennimerki bólguhjöðnunar, þar á meðal stýrðan frumudauða daufkyrninga, át á þeim og færslu þeirra í eitla. Auk þess jók fiskolían íferð frumudrápsvaldandi NK frumna á bólgustað sem gæti að hluta skýrt áhrif hennar á bólguhjöðnunina. Einnig voru NK frumur úr mönnum forræktaðar með ómega-3 FÓFS og síðan ræktaðar áfram með eða án daufkyrninga. Ómega-3 fitusýran dókósahexaensýra hafði áhrif á samskipti NK frumna við daufkyrninga og dró úr bólguvirkni þeirra. Einnig sýndu niðurstöðurnar að NK frumur tjá lípoxýgenasa sem eru nauðsynlegir fyrir myndun bólguhjöðnunarboðefna og geta sjálfar myndað lípíðafleidd bólguhjöðnunarboðefni. Niðurstöður verkefnisins hvetja til frekari skoðunar á ómega-3 FÓFS og NK frumum í tengslum við meðferð bólgusjúkdóma.
Abstract
Although inflammation is a necessary and beneficial process, chronic inflammation contributes to approximately half of all disease-associated deaths worldwide. Resolution of inflammation is a tightly regulated process promoted by specialized pro-resolving mediators (SPMs) derived from omega-3 polyunsaturated fatty acids (PUFAs). Previous results by the research group show that dietary omega-3 PUFAs promote resolution of inflammation in a murine inflammatory model. Additionally, they showed that natural killer (NK) cells are necessary for resolution of inflammation. However, the effects of omega-3 PUFAs on NK cell recruitment and resolution effector functions are still being investigated. In this project, mice were fed a fish oil-enriched diet prior to induction of antigen-induced peritonitis. Additionally, human NK cells were cultured with or without omega-3 PUFAs and further cultured on their own or co-cultured with neutrophils. Dietary omega-3 PUFAs promoted several early hallmarks of inflammation resolution, including neutrophil apoptosis and efferocytosis. In addition, they increased the number of degranulating NK cells accumulating at the inflamed site which may partly explain the effects of omega-3 PUFAs on resolution of the inflammation. Furthermore, the omega-3 PUFA docosahexaenoic acid attenuated pro-inflammatory crosstalk between human NK cells and neutrophils. Finally, the results show that NK cells express lipoxygenases required for the synthesis of and can produce lipid-derived SPMs when provided with their substrate. These results support further consideration of omega-3 PUFAs and NK cells in relation to treatment of inflammation-related diseases.
Kirstine Nolling Jensen er fædd árið 1991 í Vejen í Danmörku. Hún lauk BS-prófi frá Syddansk Universitet árið 2014 og MS-gráðu frá sama skóla árið 2016. Kirstine byrjaði í doktorsnámi við Háskóla Íslands árið 2016. Meðfram námi sinnti hún einnig aðstoðarkennslu við Háskóla Íslands, var stjórnarmeðlimur í Lífvísindasetri, young Scandinavian Society for Immunology (ySSI) og Helix, ásamt því að vera umsjónarmaður á frumuflæðisjár-, SimpleWestern- og frystiskerakjarna á ónæmisfræðideild Landspítalans. Hún vinnur nú að rannsóknum á rannsóknastofu Ingibjargar Harðardóttur og Jónu Freysdóttur. Kirstine er gift Hilmari Erni Gunnlaugssyni Nielsen og eiga þau dótturina Elísabetu Ýrr Nolling Hilmarsdóttur.