Header Paragraph

Háskólanemar frá Texas heimsóttu Lífvísindasetur HÍ

Image
Háskólanemar frá Texas heimsækja Lífvísindasetur HÍ

Hópur nemenda frá Texas Rio Grande Valley háskóla í Texas í Bandaríkjunum var á ferð hér á landi dagana 9.-21. júní sl. Meginmarkmið ferðarinnar var að kynnast vísindasamfélaginu á Íslandi en flestir eru nemendurnir í námi í lífvísindum, erfðafræði og efnafræði og stefna á frekara nám í læknisfræði, heilbrigðis- eða erfðavísindum. 

Lífvísindasetur Háskóla Íslands er formlegt samstarf rannsóknahópa í sameinda- og lífvísindum hér á landi og því óskaði bandaríski hópurinn sérstaklega eftir að fá að heimsækja Lífvísindasetrið þar sem nemendur fengu stutta kynningu á starfseminni og þáðu hádegishressingu. Skólinn er mjög áhugasamur um frekara samstarf við Háskóla Íslands í kennslu en einnig á sviði vísindarannsókna.
 

Image
Háskólanemar frá Texas heimsóttu Lífvísindasetur HÍ

Nemendurnir frá Bandaríkjunum ásamt kennara sínum, Sigríði Klöru Böðvarsdóttur framkvæmdastjóra Lífvísindaseturs HÍ, Jóni Jóhannesi Jónssyni prófessor og Þórarni Guðjónssyni forseta Læknadeildar HÍ.