Háskólanemar frá Texas heimsóttu Lífvísindasetur HÍ
Hópur nemenda frá Texas Rio Grande Valley háskóla í Texas í Bandaríkjunum var á ferð hér á landi dagana 9.-21. júní sl. Meginmarkmið ferðarinnar var að kynnast vísindasamfélaginu á Íslandi en flestir eru nemendurnir í námi í lífvísindum, erfðafræði og efnafræði og stefna á frekara nám í læknisfræði, heilbrigðis- eða erfðavísindum.
Lífvísindasetur Háskóla Íslands er formlegt samstarf rannsóknahópa í sameinda- og lífvísindum hér á landi og því óskaði bandaríski hópurinn sérstaklega eftir að fá að heimsækja Lífvísindasetrið þar sem nemendur fengu stutta kynningu á starfseminni og þáðu hádegishressingu. Skólinn er mjög áhugasamur um frekara samstarf við Háskóla Íslands í kennslu en einnig á sviði vísindarannsókna.
Nemendurnir frá Bandaríkjunum ásamt kennara sínum, Sigríði Klöru Böðvarsdóttur framkvæmdastjóra Lífvísindaseturs HÍ, Jóni Jóhannesi Jónssyni prófessor og Þórarni Guðjónssyni forseta Læknadeildar HÍ.