Header Paragraph

Göngum saman veitir 15 milljónir króna í styrki til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini

Image
Göngum saman ásmat rektor og forseta HVS

Þann 28. október sl. veitti Göngum saman 15 milljónum króna í rannsóknastyrki til vísindamanna á sviði grunnrannsókna á brjóstakrabbameini. Þetta var í sextánda skipti sem Göngum saman veitir styrki og hefur þar með veitt um 165 milljónum króna til brjóstakrabbameinsrannsókna frá stofnun félagsins árið árið 2007.

Sex aðilar fengu styrk að þessu sinni
 

Alda Björk Oddgeirsdóttir, meistaranemi í líf- og læknavísindum við Háskóla Íslands, hlaut 2,5 milljónir króna til verkefnisins: „Æxlingar úr brjóstakrabbameinssjúklingum: Tjáning TSP-1 viðtakanna CD36 og CD47 í ólíkum undirgerðum brjóstakrabbameins“.    

Erna María Jónsdóttir, doktorsnemi við lyfjafræðideild Háskóla Íslands, hlaut 3,5 milljónir króna til verkefnisins: „Utanfrumubólur með EGFR bindlum og CRISPR/Cas9 tækni sem nanólyfjaform gegn EGFR+ þríneikvæðum brjóstakrabbameinum“.    

Kristrún Ýr Holm, doktorsnemi í heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands, hlaut 2,5 milljónir króna til verkefnisins: „Leit að smásameinda lífmerkjum fyrir snemmgreiningu brjóstakrabbameina“.

Siggeir Fannar Brynjólfsson, dósent læknadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur við Ónæmisfræðideild Landspítala, hlaut 2,5 milljónir króna til verkefnisins: „Hefur BRCA2 999del5 stökkbreytingin áhrif á ónæmissvar arfbera?“. 

Snædís Ragnarsdóttir, doktorsnemi í líf- og læknavísindum við Háskóla Íslands, hlaut 1,5 milljónir króna til verkefnisins: „Horfur sjúklinga með BRCA2 stökkbreytt og ER jákvæð brjóstakrabbamein“.

Valdís Gunnarsdóttir Þormar, doktorsnemi í heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands, hlaut 2,5 milljónir króna til verkefnisins: „Tengsl lykilpróteina og stoðvefshlutfalls í krabbameinsvef við sjúkdómsháða lifun brjóstakrabbameinssjúklinga“.

Um Göngum saman

Göngum saman var stofnað árið 2007 af Gunnhildi Óskarsdóttur, prófessors við Menntavísindasvið HÍ, sem lést árið 2023. Helsti tilgangur félagsins er að safna fé til grunnrannsókna sem auka skilning okkar á uppruna og eðli krabbameins í brjóstum. Rannsóknarverkefni eru metin skv. faglegu gæðamati en auk Vísindanefndar Göngum saman leggur ytri ráðgjafanefnd mat á umsóknirnar. Styrkveitingin byggir að mestu leyti á frjálsum framlögum einstaklinga sem hafa lagt hafa sitt af mörkum með þátttöku í fjáröflunum félagsins, sem voru margvíslegar í ár s.s. áheit á hlaupara í Reykjavíkurmaraþoninu, kaupum á Brjóstasnúðum Brauð & co í tilefni Mæðradagsins, þátttaka í styrktargöngu Volcano Trails í Þórsmörk og kaupum á ýmsum söluvarningi félagsins. Einnig hafa ýmis félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar lagt Göngum saman lið, en megináhersla er á að öll framlög renni óskipt í vísindasjóð félagsins. Göngum saman hefur veitt um 165 milljónum króna til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini frá stofnun félagsins.

Heimasíða Göngum saman

Image
Göngum saman styrkþegar

Frá vinstri: Valdís Gunnarsdóttir Þormar, Snædís Ragnarsdóttir, Siggeir Fannar Brynjólfsson, Kristrún Ýr Holm, Berglind Eva Benediktsdóttir leiðbeinandi Ernu Maríu Jónsdóttur og Alda Björk Oddgeirsdóttir 

Image
Göngum saman ásmat rektor og forseta HVS

Frá vinstri: Kristrún Ýr Holm, Valdís Gunnarsdóttir Þormar, Snædís Ragnarsdóttir, Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, Unnur Anna Valdimarsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs HÍ, Berglind Eva Benediktsdóttir leiðbeinandi Ernu Maríu Jónsdóttur, Siggeir Fannar Brynjólfsson og Alda Björk Oddgeirsdóttir