Fræðafólk og nemar við HÍ verðlaunaðir fyrir vísindastörf á Landspítala
Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor við næringarfræði í Háskóla Íslands og deildarstjóri næringarstofu Landspítala, tók við viðurkenningu sem heiðursvísindamaður Landspítala 2023 á uppskeruhátíð vísindastarfs á Landspítala, Vísindum á vordögum, í gær. Við saman tilefni var Poorya Foroutan Pajoohian, doktorsnemi við Háskóla Íslands, útnefndur ungur vísindamaður Landspítala 2023 og þá hlaut Sædís Sævarsdóttir, prófessor og varadeildarforseti Læknadeildar Háskóla Íslands, einn hæsta styrk sem veittur er árlega fyrir vísindastörf hér á landi.
Landspítalinn, sem er ein helsta samstarfsstofnun Háskóla Íslands, hefur haldið uppskeruhátíðina Vísindi á vordögum um árabil. Markmið hennar er auka sýnileika umfangsmikils vísindastarfs á Landspítala, heiðra framúrskarandi vísindafólk og veita fjölda verðlauna og styrkja.
Ingibjörg Gunnarsdóttir, sem tekur í sumar við starfi aðstoðarrektors vísinda við HÍ, var að þessu sinni útnefnd heiðursvísindamaður Landspítala 2023 fyrir framúrskarandi framlag til vísinda á ferli sínum. Ingibjörg hefur verið deildarstjóri næringarstofu Landspítala frá árinu 2013 og veitt Rannsóknastofu í næringarfræði við Landspítala og Háskóla Íslands forstöðu samhliða störfum sem prófessor við HÍ. Hún hefur hefur komið að fjölbreyttum rannsóknum á sviði næringarfræði og hefur síðasta áratug helgað sig rannsóknum á næringarástandi viðkvæmra hópa með megináherslu á barnshafandi konur. Ingibjörg hefur hlotið bæði innlenda og erlenda rannsóknarstyrki, er virk í alþjóðlegu samstarfi og höfundur yfir 100 vísindagreina sem birtar hafa verið í alþjóðlegum vísindatímaritum sem gera strangar fræðilegar kröfur.
Poorya Foroutan Pajoohian var útnefndur ungur vísindamaður Landspítala í ár. Hann hefur samhliða námi sínu í heilbrigðisgreinum unnið sem vísindamaður á ýmsum rannsóknarstofum. Poorya, sem fæddur er í Kúrdistan, stundar doktornám við Læknadeild HÍ undir leiðsögn Ingileifar Jónsdóttur prófessors og Stefaníu P. Bjarnarsonar dósents og starfar á ónæmisfræðideild Landspítala. Hann vinnur nú að rannsóknum sem tengjast aðferðum til að vinna bug á takmarkaðri bóluefnissvörun og vernd gegn öndunarfærasýkingum.
Sædís Sævarsdóttir, prófessor og varadeildarforseti Læknadeildar Háskóla Íslands, starfar einnig sem gigtarlæknir á Landspítala og vísindamaður hjá Íslenskri erfðagreiningu. Hún hlaut verðlaun úr Verðlaunasjóði Árna Kristinssonar og Þórðar Harðarson í læknisfræði og skyldum greinum en þau nema nú sjö milljónum króna og eru einhver stærstu verðlaun sem veitt eru fyrir vísindastörf hér á landi. Flestar rannsóknir Sædísar og samstarfsfólks hafa beinst að því að finna áhættuþætti og forspárþætti fyrir meðferðarsvörun og horfum í algengasta liðbólgusjúkdómnum, iktsýki (rheumatoid arthritis), öðrum gigtar- og sjálfsónæmissjúkdómum. Ásamt teymi vísindafólks hjá Íslenskri erfðagreiningu og víðar birti Sædís nýlega stærstu erfðarannsóknir sem gerðar hafa verið á iktsýki annars vegar og sjálfsónæmi í skjaldkirtli.
Á Vísindum á vordögum hlaut stór hópur vísindamanna, sem starfar bæði á Landspítala og við HÍ, styrki úr Minningargjafasjóði Landspítala Íslands og Vísindasjóði spítalans. Enn fremur fengu nemendur við HÍ verðlaun fyrir bestu veggspjöldin á uppskeruhátíðinni.
Ingibjörg Gunnarsdóttir, sem tekur í sumar við starfi aðstoðarrektors vísinda við HÍ, var að þessu sinni útnefnd heiðursvísindamaður Landspítala 2023 fyrir framúrskarandi framlag til vísinda á ferli sínum. MYND/Þorkell Þorkellsson