Spekigleði GPMLS

Meðlimir GPMLS (Graduate Program in Molecular Life Sciences) hittust á árlegri Spekigleði í Herkastalanum þann 6. nóvember. Kjarni Spekigleðinnar ár hvert eru töflukynningar nemenda á verkefnum sínum, en 16 nemendur kynntu verkefni sín og mynduðust líflegar umræður í kjölfarið.

Þetta árið fengu þátttakendur einnig kynningu frá Ingunni Sigurpálsdóttur, framkvæmdastjóra Auðnu Tæknitorgs, um nýsköpun og tækniyfirfærslu, frá Berglindi Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastjóra ORF Líftækni, um feril hennar í vísindum og stjórnun og að lokum kynningu frá Ernu Magnúsdóttur, dósent við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands, um það hvernig erfðir ákvarða litróf líffræðilegs kyns. 

GPMLS er prógram fyrir framhaldsnema og aðra sem stunda rannsóknir á sameindalífvísindum á Íslandi og er hugsað sem viðbót við hefðbundið framhaldsnám og þær skyldur sem því fylgja. Meðlimir GPMLS eru því framhaldsnemendur, nýdoktorar, sérfræðingar og hópstjórar innan Heilbrigðisvísindasviðs- og Verkfræði- og Náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Landspítala og annarra rannsóknastofnana á Íslandi. 

Auður Anna Aradóttir Pind, verkefnisstjóri GPMLS, segir starf GPMLS og Spekigleðina vera mikilvæga leið fyrir nemendur og hópstjóra til að styrkja tengslanetið sín á milli, auka samvinnu milli vísindamanna og gera þeim kleift að byggja upp þverfagleg rannsóknaverkefni.
 

Share