Header Paragraph

Nýtt hlaðvarp um landnám líftækni á Íslandi

Image
Landnám líftækni - hlaðvarp á vefsíðu HÍ

Faðir erfðafræðinnar á Íslandi sem var meðal þeirra fyrstu í heiminum til að klóna erfðaefni, fyrsta líftæknifyrirtæki Íslands sem byggðist á hagnýtingu á hveraörverum, sauðfjársjúkdómar, leitin að brjóstakrabbameinsgeninu og ensím úr þorski sem nýtt voru í snyrtivörur og til lækninga koma við sögu í nýju hlaðvarpi sem vísindamenn við Háskóla Íslands standa að og er helgað upphafi og þróun líftækni hér á landi.

Hlaðvarpið nefnist Líftækni nemur land á Íslandi og er fimm þættir. Þar er rætt við brautryðjendur í líftækni hér á landi en saga þessarar greinar spannar yfir 50 ár. Hún hófst með rannsóknastarfi kennara við líffræðiskor Háskóla Íslands upp úr 1970 en það var fyrsti viðmælandinn í þáttunum, Guðmundur Eggertsson, prófessor í erfðafræði, sem kynnti nemendur sína snemma fyrir sameindalíffræði og skyldum greinum. Guðmundur var jafnframt meðal þeirra fyrstu í heiminum sem tileinkuðu sér klónun erfðaefnis og margir nemenda hans við HÍ fóru utan í frekara nám og bættust í framhaldinu í hóp frumkvöðla í greininni.

Guðmundur fagnaði 90 ára afmæli þann 24. apríl og af því tilefni verður efnt til málþings honum til heiðurs 26. apríl þar sem fjallað verður um störf Guðmundar og áhrif hans.

Meðal viðmælenda í hlaðvarpsþáttunum eru fjölmargt annað fyrrverandi starfsfólk Háskóla Íslands og Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og má þar nefna Ólaf Andrésson, Jakob Kristjánsson, Jórunni Eyfjörð, Ágústu Guðmundsdóttur, Valgerði Andrésdóttur, Sigmund Guðbjarnason, Helgu Margréti Ögmundsdóttur og Halldór Þormar. Öll komu þau að upphafi líftækni á Íslandi á einn eða annan hátt, þ.m.t. kennslu, rannsóknum, þátttöku í nefndastarfi og með því að vekja athygli á líftækni sem hugsanlegri atvinnugrein til framtíðar.

En hvað er líftækni? Eins og segir í þáttunum er líftækni tækni þar sem líffræðilegum ferlum er beitt við framleiðslu á vörum. „Meginforsenda líftækninnar er sú erfðafræði sem byggist á uppgötvunum vísindamannanna James Watson og Francis Crick en þeir settu fram hið þekkta líkan af DNA-sameindinni árið 1953. Vísindalegar rannsóknir leiddu til þess að þekking á kjarnsýrum jókst mjög á næstu árum. Upp úr 1970 fór vísindafólk að hagnýta þekkinguna með þeim hætti að til varð nútímalíftækni. Með erfðafræðinni verður bylting í möguleikum okkar til að þróa leiðir til að skapa afurðir sem byggjast á líftækni,“ segir Eiríkur Steingrímsson, prófessor við Lífvísindasetur Háskóla Íslands, sem er hvatamaður að hlaðvarpinu ásamt þeim Guðmundi Hrafni Guðmundssyni, Zophonías O. Jónssyni og Ólafi S. Andréssyni, prófessorum við Líf- og umhverfisvísindadeild skólans. Guðmundur Jónsson sagnfræðingur var þeim einnig til aðstoðar.
 

Texti

Guðmundur Eggertsson, fyrrverandi prófessor. Ljósmynd/Sigfús Már Pétursson

Mynd
Image

Háskólinn lykilaðili í þróun líftækni á Íslandi
Sagan af landnámi líftækni hér á landi er um leið sagan af því hvernig Háskóli Íslands hefur og getur stuðlað að mikilvægri þekkingarsköpun sem skilar sér út í atvinnulífið. „Alls staðar þar sem drepið er niður í sögunni kemur skýrt fram hversu stóran þátt Háskólinn og grunnrannsóknir við skólann skipta máli fyrir þróun greinarinnar og sköpunar nýrra atvinnutækifæra,“ segir Zophonías.

Sagan af þessari vaxandi vísindagrein, sem stendur á þröskuldi nýrra tíma, á að sögn Eiríks erindi við almenning því hún er gott dæmi um hvernig Háskóli Íslands getur bæði stuðlað að mikilvægri þekkingarsköpun og haft áhrif á atvinnulífið með menntun fólks til nýrra tækifæra. 

„Tvö stór líftæknifyrirtæki starfa á Íslandi í dag, annars vegar Íslensk erfðagreining sem starfað hefur á háskólasvæðinu í um tvo áratugi og er alþjóðlega þekkt sem eitt öflugasta fyrirtæki veraldar á sviði mannerfðafræði. Hins vegar er það líftæknilyfjafyrirtækið Alvotech, sem einnig starfar í landi Vísindagarða skólans og er nú að stækka höfuðstöðvar sínar. Það stefnir á að skapa 20% gjaldeyristekna Íslendinga á næstu árum. Auk þessara stóru fyrirtækja starfa ýmis minni líftæknifyrirtæki á Íslandi svo sem ORF genetics, Genís, Kerecis, EpiEndo, Akthelia, Oculis, 3Z og fleiri,” bendir Eiríkur á og  bætir við að m.a. fyrir tilstilli Háskóla Íslands hafi fjöldi Íslendinga hlotið menntun á þessu sviði og sé nú starfsfólkið sem gerir líftækni mögulega á Íslandi. 
 

Image

Leifur Reynisson, Eiríkur Steingrímsson og Zophonías O. Jónsson. Ljósmyndir/Kristinn Ingvarsson

 

Háskólinn flytur inn nýjustu þekkingu til landsins
Umsjónarmaður hlaðvarpsins er Leifur Reynisson sagnfræðingur en hann hefur langa reynslu af söfnun munnlegra heimilda sem þessa og hefur tekið hljóðrituð viðtöl við á annað hundrað manns og unnið útvarpsþætti. „Háskóli Íslands hefur frá upphafi verið helsti vettvangur rannsókna hérlendis. Hann hefur átt stóran þátt í að auðga atvinnulífið með því að flytja nýjustu þekkingu inn til landsins og vinna úr henni með vísindalegum hætti svo hún henti sem best íslenskum aðstæðum. Íslensk líftækni er gott dæmi þar um. Hún hefur blómstrað frá lokum síðustu aldar þegar Íslensk erfðagreining kom fram á sjónarsviðið eins og kunnugt er. Færri þekkja til þess hvernig íslenskir vísindamenn höfðu plægt jarðveginn undir verndarvæng Háskóla Íslands,“ segir Leifur um þættina.

Zophonías tekur undir þetta og bætir við að akademían hafi átt stóran þátt í að gera íslenskt samfélag opnara og fjölbreytilegra. „Fyrir vikið eiga Íslendingar betri kost á að öðlast menntun á heimsmælikvarða og fá störf við hæfi í eigin landi. Sumir viðmælendur hafa á orði að Háskólinn gerði ekki nógu mikið til að benda á hlutdeild sína í atvinnulífinu – og samfélaginu yfirleitt. Vísindasamfélagið mætti vera duglegra við að gera grein fyrir starfi sínu, ekki hvað síst til að hvetja ungt fólk til dáða með því að benda því á hin forvitnilegu viðfangsefni og fjölbreyttu tækifæri sem lífið býður upp á. Saga líftækninnar er svo sannarlega gott dæmi um dýrmætt framlag Háskólans til nútímalegra samfélags. Framlag sem full ástæða er til að halda á lofti,“ segir hann.

Hlaðvarpið er unnið með stuðningi samfélagssjóðs Háskóla Íslands sem veitir vísindamönnum við skólann styrki til að miðla vísindum og eiga samtal við samfélagið á fjölbreyttan hátt.

LÍFTÆKNI NEMUR LAND Á ÍSLANDI - HLAÐVARP