
Faðir erfðafræðinnar á Íslandi sem var meðal þeirra fyrstu í heiminum til að klóna erfðaefni, fyrsta líftæknifyrirtæki Íslands sem byggðist á hagnýtingu á hveraörverum, sauðfjársjúkdómar, leitin að brjóstakrabbameinsgeninu og ensím úr þorski sem nýtt voru í snyrtivörur og til lækninga koma við sögu í nýju hlaðvarpi sem vísindamenn við Háskóla Íslands standa að og er helgað upphafi og þróun líftækni hér á landi.
Hlaðvarpið nefnist Líftækni nemur land á Íslandi og er fimm þættir. Þar er rætt við brautryðjendur í líftækni hér á landi en saga þessarar greinar spannar yfir 50 ár. Hún hófst með rannsóknastarfi kennara við líffræðiskor Háskóla Íslands upp úr 1970 en það var fyrsti viðmælandinn í þáttunum, Guðmundur Eggertsson, prófessor í erfðafræði, sem kynnti nemendur sína snemma fyrir sameindalíffræði og skyldum greinum. Guðmundur var jafnframt meðal þeirra fyrstu í heiminum sem tileinkuðu sér klónun erfðaefnis og margir nemenda hans við HÍ fóru utan í frekara nám og bættust í framhaldinu í hóp frumkvöðla í greininni.
Guðmundur fagnaði 90 ára afmæli þann 24. apríl og af því tilefni verður efnt til málþings honum til heiðurs 26. apríl þar sem fjallað verður um störf Guðmundar og áhrif hans.
Meðal viðmælenda í hlaðvarpsþáttunum eru fjölmargt annað fyrrverandi starfsfólk Háskóla Íslands og Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og má þar nefna Ólaf Andrésson, Jakob Kristjánsson, Jórunni Eyfjörð, Ágústu Guðmundsdóttur, Valgerði Andrésdóttur, Sigmund Guðbjarnason, Helgu Margréti Ögmundsdóttur og Halldór Þormar. Öll komu þau að upphafi líftækni á Íslandi á einn eða annan hátt, þ.m.t. kennslu, rannsóknum, þátttöku í nefndastarfi og með því að vekja athygli á líftækni sem hugsanlegri atvinnugrein til framtíðar.
En hvað er líftækni? Eins og segir í þáttunum er líftækni tækni þar sem líffræðilegum ferlum er beitt við framleiðslu á vörum. „Meginforsenda líftækninnar er sú erfðafræði sem byggist á uppgötvunum vísindamannanna James Watson og Francis Crick en þeir settu fram hið þekkta líkan af DNA-sameindinni árið 1953. Vísindalegar rannsóknir leiddu til þess að þekking á kjarnsýrum jókst mjög á næstu árum. Upp úr 1970 fór vísindafólk að hagnýta þekkinguna með þeim hætti að til varð nútímalíftækni. Með erfðafræðinni verður bylting í möguleikum okkar til að þróa leiðir til að skapa afurðir sem byggjast á líftækni,“ segir Eiríkur Steingrímsson, prófessor við Lífvísindasetur Háskóla Íslands, sem er hvatamaður að hlaðvarpinu ásamt þeim Guðmundi Hrafni Guðmundssyni, Zophonías O. Jónssyni og Ólafi S. Andréssyni, prófessorum við Líf- og umhverfisvísindadeild skólans. Guðmundur Jónsson sagnfræðingur var þeim einnig til aðstoðar.