
"Það eru blikur á lofti í rannsóknarstarfi háskóla á Íslandi. Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2024 gerir ráð fyrir stórfelldum niðurskurði til samkeppnissjóða Vísinda- og tækniráðs, eða samtals um rúman milljarð króna, þrátt fyrir að fjárveitingar til hans séu mun lægri en í sambærilega sjóði í nágrannalöndunum," segir Erna Magnúsdóttir dósent og stjórnarformaður Lífvísindaseturs HÍ en hún fer fyrir hópi vísindafólks sem mótmælir fyrirhuguðum niðurskurði til rannsóknarsjóða.
"Þarna er verið að höggva í undirstöður þess öfluga nýsköpunargeira sem hefur verið að þróast á Íslandi á undanförnum árum, en sem dæmi má nefna að ef miðað er við höfðatölu starfa fjórum sinnum fleiri við líftækni á Íslandi en í Bandaríkjunum, þar sem atvinnugreinin varð til."
Nú hafa 1008 vísindamenn á Íslandi skrifað undir áskorun til stjórnvalda að falla frá fyrirhuguðum niðurskurði til vísinda og vara við miklum atgervisflótta ungra vísindamanna úr íslensku vísindasamfélagi strax á næsta ári.