Niðurskurður á framlögum til rannsóknarsjóða hefur alvarlegar afleiðingar
"Það eru blikur á lofti í rannsóknarstarfi háskóla á Íslandi. Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2024 gerir ráð fyrir stórfelldum niðurskurði til samkeppnissjóða Vísinda- og tækniráðs, eða samtals um rúman milljarð króna, þrátt fyrir að fjárveitingar til hans séu mun lægri en í sambærilega sjóði í nágrannalöndunum," segir Erna Magnúsdóttir dósent og stjórnarformaður Lífvísindaseturs HÍ en hún fer fyrir hópi vísindafólks sem mótmælir fyrirhuguðum niðurskurði til rannsóknarsjóða.
"Þarna er verið að höggva í undirstöður þess öfluga nýsköpunargeira sem hefur verið að þróast á Íslandi á undanförnum árum, en sem dæmi má nefna að ef miðað er við höfðatölu starfa fjórum sinnum fleiri við líftækni á Íslandi en í Bandaríkjunum, þar sem atvinnugreinin varð til."
Nú hafa 1008 vísindamenn á Íslandi skrifað undir áskorun til stjórnvalda að falla frá fyrirhuguðum niðurskurði til vísinda og vara við miklum atgervisflótta ungra vísindamanna úr íslensku vísindasamfélagi strax á næsta ári.
Vísindamenn innan Háskóla Íslands og víðar að hafa komið í fjölmiðla á undanförnum vikum og vakið athygli á alvarlegum afleiðingum niðurskurðarins fyrir rannsóknarstarf og kennslu meistara- og doktorsnema. Fimmtudaginn 14. desember fjölmenntu vísindamenn á palla Alþingis til að mótmæla niðurskurðinum. Hópurinn taldi nokkra tugi og þurfti að hleypa þeim inn í hollum.
- Kastljós viðtal við Ernu Magnúsdóttur dósent pg stjórnarformann Lífvísindaseturs
- Frétt RÚV um mótmælin
- Frétt Heimildinnar um mótmælin
- Frétt Morgunblaðsins um mótmælin
- Viðtal í Morgunútvarpi Rásar 2 við Ernu Magnúsdóttur dósent og Eirík Steingrímsson prófessor
- Viðtal í Bítinu á Bylgjunni við Ernu Magnúsdóttur dósent og Eirík Steingrímsson prófessor
Að borða útsæðið
"Niðurskurður á Rannsóknasjóði einum og sér nemur hálfum milljarði, en það samsvarar ársverkum 70 doktorsnema. Það má því segja að fyrir liggi fjöldauppsögn ríkisins á ungum íslenskum vísindamönnum. Þessi ráðstöfun sætir furðu í landi þar sem stjórnvöld segjast leggja mikla áherslu á nýsköpun, að skorið sé niður til fyrsta hlekksins í nýsköpunarkeðjunni," segir Erna Magnúsdóttir.
- Nýsköpun þarf í grunninn þrennt til að þrífast: frumkvöðla með hugmyndir, fjármagn og vel þjálfað starfsfólk.
- Þetta síðastnefnda er einmitt grunnstarfsemi háskóla. Þeir kenna nemum í grunnnámi og þjálfa framhaldsnema í vísindarannsóknum þar sem meistara- og doktornemar vinna að grunnrannsóknum á viðkomandi sviði. Mikilvægast fyrir nýsköpunarfyrirtækin er kannski einmitt þjálfunin sem nemendur fá í sjálfstæðum vinnubrögðum og verkefna- og tímastjórnun. Háskólar koma oft einnig með nýjar aðferðir og hugmyndir áður en þær verða að viðskiptatækifærum.
- Grunnrannsóknir háskóla og stofnana eru því afar mikilvæg undirstaða fyrir atvinnulífið.
- Líftæknin er að verða fjórða stoðin í íslensku atvinnulífi en í þeim iðnaði starfa nú um 1500 manns. Stærsta fyrirtækið í þeim geira, Alvotech, telur nú um 1100 starfsmenn. Það fyrirtæki hefur áætlað að það muni afla 20% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar árið 2027.
- Ef stjórnvöld vilja halda áfram að efla nýsköpun í landinu er nauðsynlegt að efla samkeppnissjóði vísinda um leið. Annars stranda nýju fyrirtækin vegna skorts á starfsfólki.
- Hlutverk fræðafólks á sviði hug- og félagsvísinda sem sinnir grunnrannsóknum innan og utan háskólanna má líkja við hlutverk frumkvöðla með hugmyndir. Fræðafólkið starfar gjarnan eitt eða í minni hópum, rannsóknir þess beinast að íslenskri menningu og samfélagi og niðurstöður þeirra liggja sem grunnur að samfélagslegri nýsköpun og þekkingarmiðlun.
- „Besta ráðið sem ég get gefið ykkur er að borða ekki kartöfluútsæði í kreppu“. Þetta var boðskapur Esko Aho, fyrrverandi forsætisráðherra Finnlands, á Viðskiptaþingi í Reykjavík 2013, þar sem hann fór yfir lærdóm sem draga mátti af því hvernig Finnland tókst á við kreppuna í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar. „Það er nauðsynlegt að fjárfesta á krepputíma. Það var það besta sem við gerðum“, sagði Aho.
Fjöldi vísindamanna sem vildi fylgjast með umræðum af pöllum Alþingis var slíkur að það varð að hleypa fólki inn í hollum.