Header Paragraph

Þriðja árs læknanemar fá styrk til BS-rannsókna við erlenda háskóla

Image
Styrkþegar ásamt rektor og forseta og varaforseta Læknadeildar. Frá vinstri: Jón Atli Benediktsson, Ágústa Eyjólfsdóttir, Katrín Hólmgrímsdóttir, Birta Rakel Óskarsdóttir, Bjarki Leó Snorrason, Sædís Sævarsdóttir og Þórarinn Guðjónsson.

Ágústa Eyjólfsdóttir, Birta Rakel Óskarsdóttir, Bjarki Leó Snorrason og Katrín Hólmgrímsdóttir, öll þriðja árs nemar í læknisfræði við Háskóla Íslands, hafa hlotið styrk úr Menntasjóði Læknadeildar til að vinna að BS-rannsóknarverkefni við erlenda háskóla. Heildarstyrkupphæð nemur 1,4 milljónum króna. 

Rannsóknarverkefni Ágústu ber heitið „Trends and predictors of COVID-19 vaccination uptake among foreign-born persons in Sweden“. Vitað er að almennt er þátttaka innflytjenda í bólusetningum minni en infæddra, sem getur valdið aukinni útbreiðslu ákveðinna smitsjúkdóma í samfélaginu. Þó hefur það ekki mikið verið rannsakað hvernig tími hefur áhrif á bólusetningatíðni þessara hópa. Kannað var hvernig tíðni og hlutföll COVID-19-bólusetninga voru breytileg milli innflytjendahópa og innfæddra eftir að bólusetningar gegn sjúkdómnum hófust í Svíþjóð undir lok árs 2020. Eftirfylgnitíminn var tæplega tvö ár og náði til allra fullorðinna skrásettra íbúa í Svíþjóð þann 1. janúar 2020. Að auki var skoðað hvernig kyn, aldur, laun, atvinna, menntun og heilsufarslegir áhættuþættir höfðu áhrif á tíðni bólusetninga innan innflytjendahópanna. Verkefnið var unnið undir leiðsögn Fredriks Nyberg, prófessors við Gautaborgarháskóla, og í samvinnu við SCIFI-PEARL teymið sem annast faraldsfræðirannsóknir tengdar COVID-19 í Svíþjóð.

Rannsóknarverkefni Birtu Rakelar ber heitið“Mitral Valve Calcification with Warfarin Use” og gengur rannsóknin út á að skoða möguleg tengsl blóðþynningarlyfsins warfarins við kalkanir í míturbaug en míturbaugur er hluti af míturlokunni í hjartanu. Leiðbeinandi í verkefninu er Arnar Geirsson, yfirlæknir og prófessor við læknadeild Yale-háskóla í Bandaríkjunum, og var verkefnið unnið þar. Kalkanir í míturbaug hafa klínískt vægi, meðal annars í míturlokuaðgerðum þar sem kalkanirnar geta valdið tæknilegum erfiðleikum og eru tengdar við verri útkomur og hærra dánarhlutfall. Fyrri rannsóknir hafa sýnt fram á möguleg tengsl warfarin-notkunar við kalkanir í hjarta og æðakerfi, meðal annars í míturbaugnum. Rannsóknin er tilfella-viðmiðarannsókn þar sem tilfellahópurinn er sjúklingar með kalkanir í míturbaug og viðmiðunarhópurinn er sjúklingar án kalkana í míturbaug. 

Rannsóknarverkefni Bjarka Leós ber heitið “Contemporary outcomes in patients undergoing repair for acute type A aortic dissection with focus on distal aortic remodeling“. Leiðbeinendur eru Arnar Geirsson, yfirlæknir og prófessor við læknadeild Yale-háskóla í Bandaríkjunum, og Roland Assi, lektor við sömu deild. Bráð ósæðarflysjun er lífshættulegt ástand sem einkennist af því að innsta lag ósæðarinnar rofnar frá ytri lögum sem leiðir til blæðingar í aukaholrými. Í flestum tilvikum kallar þetta á bráðaaðgerð. Markmið rannsóknarinnar var að meta hvort ágengari skurðaðgerðartækni við ósæðarflysjun af svokallaðri gerð 1 leiddi til hagstæðari ummyndunar í ósæðinni.

Rannsóknarverkefni Katrínar ber heitið „Safety of novel oral anticoagulants (NOAC) compared to warfarin for postoperative anticoagulation following mitral valve repair surgery“. Skammtíma blóðþynningarmeðferð er veitt eftir aðgerðir á míturloku í hjarta til þess að fyrirbyggja segamyndun á míturloku og segarek. Það verður þó að gera af varfærni vegna blæðingarhættu á blóðþynningarmeðferð. Ekki eru til skýrar meðferðir um blóðþynningu í kjölfar míturlokuviðgerða vegna þess hve fáar rannsóknir hafa verið gerðar á viðfangsefninu. Markmið rannsóknarinnar var að kanna öryggi og virkni fjögurra tegunda blóðþynningarlyfja sem nefnast NOAC (e. novel oral anticoagulants), og bera þau saman við blóðþynningarlyfið warfarin, sem notað hefur verið í áratugi til blóðþynningar í kjölfar míturlokuviðgerða. Leiðbeinandi í verkefninu er Arnar Geirsson, yfirlæknir og prófessor við læknadeild Yale-háskóla í Bandaríkjunum, og meðleiðbeinandi Andrea Amabile, læknir og vísindamaður við sömu deild.

Um sjóðinn
Menntasjóður Læknadeildar var stofnaður árið 2019  og hefur það markmið að styðja nemendur í Læknadeild til náms, rannsókna eða símenntunar erlendis ásamt því að styrkja fyrirlestrahald eða fræðslustarf í læknavísindum hérlendis. Þetta er í annað sinn sem úthlutað er úr sjóðnum.

Sjóðurinn grundvallast á safni sjóða sem tengjast Læknadeild og læknavísindum og voru sameinaðir. Sjóðirnir eru: Legat Guðmundar Magnússonar prófessors og Katrínar Skúladóttur (1922), Minningarsjóður John McKenna Pearson (2001) og Starfssjóður Læknadeildar (1987).
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta og starfsfólk. Sjóðirnir eru mikil lyftistöng fyrir háskólann, sem hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga í gegnum tíðina en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar.

Image
Styrkþegar ásamt rektor og forseta og varaforseta Læknadeildar. Frá vinstri: Jón Atli Benediktsson, Ágústa Eyjólfsdóttir, Katrín Hólmgrímsdóttir, Birta Rakel Óskarsdóttir, Bjarki Leó Snorrason, Sædís Sævarsdóttir og Þórarinn Guðjónsson.

Styrkþegar ásamt rektor og forseta og varaforseta Læknadeildar. Frá vinstri: Jón Atli Benediktsson, Ágústa Eyjólfsdóttir, Katrín Hólmgrímsdóttir, Birta Rakel Óskarsdóttir, Bjarki Leó Snorrason, Sædís Sævarsdóttir og Þórarinn Guðjónsson.
Mynd Ernir Eyjólfsson.