Header Paragraph

Ræða nýjar leiðir í hjartavernd í kjölfar hjartasjúkdóma

Image
Hjartaðgerð

English version

Um 50 vísindamenn og sérfræðingar á sviði hjarta- og æðasjúkdóma frá fjölmörgum Evrópulöndum sækja ráðstefnu á háskólasvæðinu dagana 6.-8. september þar sem fjallað verður um nýjar leiðir til þess að  draga úr áhrifum slíkra sjúkdóma á hjartað. Fræðafólk við HÍ skipuleggur ráðstefnuna og flytur jafnframt erindi á henni.

Ráðstefnan er á vegum rannsóknarverkefnisins IMproving Preclinical Assessment of Cardioprotective Therapies" (IMPACT) sem nýtur stuðnings COST-áætlunar Evrópusambandsins. Áætlunin styður evrópskt samstarf á sviði vísinda, nýsköpunar og tækni, ekki síst með það fyrir augum að byggja brýr milli rannsakenda og atvinnulífs og flýta fyrir þróun nýrra lausna í þágu samfélaga.

IMPACT-verkefnið snýst um að rannsaka frekar gagnsemi nýrra meðferðarleiða til hjartaverndar sem mögulega væri hægt að grípa til í kjölfar hjartaáfalls. Brátt hjartaáfall og hjartabilun, sem fylgir oft í kjölfarið, er meðal helstu dánarorsaka og ástæðna heilsutaps í Evrópu og víðar. Því er til mikils að vinna að finna nýjar leiðir til þess að vernda hjartavöðvann í kjölfar slíkra áfalla.

Skipuleggjandi ráðstefnunnar hér á landi er Georgios Kararigas, prófessor í lífeðlisfræði við Læknadeild Háskóla Íslands, sem fram fer í húsakynnum deCode við Sturlugötu 8. Auk hans taka fleiri vísindamenn frá HÍ, deCode, Landspítala og Hjartavernd þátt í ráðstefnunni ásamt mörgum af helstu sérfræðingum á sviði hjartaverndar. Flutt verða erindi um m.a. erfðafræði hjartasjúkdóma, nýtingu gervigreindar í hjartalækningum og þær niðurstöður sem IMPACT-verkefnið hefur þegar skilað. 

Ráðstefnan er opin áhugasömum en skráning fer fram hér

Dagskrá ráðstefnunnar má nálgast hér 

Image
Skurðstofa

Um 50 vísindamenn og sérfræðingar á sviði hjarta- og æðasjúkdóma frá fjölmörgum Evrópulöndum sækja ráðstefnu á háskólasvæðinu dagana 6.-8. september þar sem fjallað verður um nýjar leiðir til þess að  draga úr áhrifum slíkra sjúkdóma á hjartað. MYND/Kristinn Ingvarsson