
Framhaldsnám innan Háskóla Íslands hefur tekið miklum breytingum á síðasta áratug og innan skólans er nú að finna fjölmargar öflugar einingar þar sem hópar vísindamanna og nemenda fást í sameiningu við knýjandi samfélagsleg viðfangsefni. Á sviði lífvísinda er t.d. að finna afar öflugt framhaldsnemaprógramm sem kallast í daglegu tali GPMLS. Þar eru rannsóknir í sameindalíffræði nýttar til að varpa nýju ljósi á hlutverk gena í tilteknum sjúkdómum og áhrif umhverfis á líkamsstarfsemina. Prógrammið stóð fyrir svokallaðri Spekilgleði á dögunum þar sem framhaldsnemar kynntu afar fjölbreytt viðfangsefni, þar á meðal rannsóknir sem miða að því að greina brjóstakrabbamein fyrr en nú er gert.
GPMLS sem stendur fyrir Graduate Program in Molecular Life Scicences og var sett á laggirnar um það leyti sem efnahagshrunið skall á Íslendingum. Markmiðið með starfi GPMLS er ekki síst að efla kennslu og rannsóknir á sviði sameindalífvísinda hér á landi.
„GPMLS var upphaflega stofnað af Lífvísindasetri Háskóla Íslands. Prógrammið hefur vaxið og dafnað og í dag koma meðlimir GPMLS frá ýmsum deildum Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Akureyri sem allir eiga það sameiginlegt að stunda rannsóknir á sviði sameindalífvísinda. Í dag eru yfir 100 vísindamenn og nemendur skráðir í prógrammið, en markmiðið með stofnun þess var m.a. að gera rannsóknanám á þessu fræðasviði að sýnilegum og eftirsóknarverðum kosti á alþjóðavísu,“ segir Berglind Ósk Einarsdóttir, nýdoktor og verkefnsisstjóri GPMLS-prógrammsins.
Að hennar sögn fást þátttakendur við rannsóknir á hinum ýmsu sviðum sameindalífvísinda, svo sem frumulíffræði, ónæmisfræði og lífefnafræði. „Sem dæmi má nefna þá eru verkefni í gangi sem miða að því að skilgreina hlutverk ákveðinna gena í sjúkdómsmyndun sem getur gefið mikilvægar upplýsingar við þróun á nýjum lyfjum. Einnig er unnið að verkefnum sem hafa það markmið að skilja betur hvernig frumur stýra genatjáningu við mismunandi umhverfisáhrif,“ segir Berglind enn fremur.