Header Paragraph

Guðmundur Hrafn Guðmundsson hlýtur viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til rannsókna

Image
Guðmundur Hrafn Guðmundsson og Jón Atli Benediktsson

Fjórar viðurkenningar voru veittar 2. desember fyrir lofsvert framlag í starfi við Háskóla Íslands, á sviði kennslu, rannsókna, jafnréttismála og annarra starfa. Verðlaunahafar eru Matthew James Whelpton, Guðmundur Hrafn Guðmundsson, kennarar og nemendur í starfstengdu diplómanámi við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda, og Kristín Magnúsdóttir. Viðurkenningarnar voru afhentar á upplýsingafundi rektors fyrir starfsfólk. 

Viðurkenningar fyrir lofsverðan árangur í starfi hafa verið veittar við Háskóla Íslands í rúma tvo áratugi. Í upphafi var þremur starfsmönnum veitt viðurkenning á svið kennslu, rannsókna og almennra starfa en fyrir tveimur árum var tekin upp sú nýbreytni að bætt var við fjórðu viðurkenningunni fyrir lofsvert framlag til jafnréttismála. Er þetta í samræmi við þá áherslu sem lögð er á jafnréttismál í stefnu Háskóla Íslands. Allir verðlaunahafar hljóta viðurkenningarskjal, greinargerð valnefndar, blómvendi og peningaverðlaun að fjárhæð 500 þúsund krónur.

Guðmundur Hrafn Guðmundsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, hlýtur viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til rannsókna. Guðmundur Hrafn lauk BS-prófi í líffræði við Háskóla Íslands 1983 og lagði stund á framhaldsnám í sömu grein við sama skóla 1983-1984. Að því búnu stundaði hann doktorsnám við Houston-háskóla í Texas í Bandaríkjunum og við Stokkhólmsháskóla og lauk þaðan doktorsprófi árið 1992. Að námi loknu starfaði hann við rannsóknir í Svíþjóð til ársins 1999 er hann var ráðinn dósent í ónæmisfræði við Karólínsku stofnunina og starfaði þar til ársins 2000. Guðmundur Hrafn var ráðinn prófessor í frumulíffræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands árið 2001 og hefur gegnt því starfi síðan.

„Óhætt er að segja að Guðmundur Hrafn hafi sýnt mikinn metnað og elju við uppbyggingu rannsókna og aðstöðu við Háskóla Íslands. Hann leiðir öflugan rannsóknarhóp og hefur gefið nemendum tækifæri til að taka þátt í sameindalíffræðilegum rannsóknum á heimsmælikvarða. Guðmundur Hrafn er vinsæll leiðbeinandi og hefur reynst nemendum mikil fyrirmynd. Hann er víðsýnn og hugmyndaríkur vísindamaður og nýtu mikillar virðingar á sínu fagsviði.

Guðmundur Hrafn er brautryðjandi í rannsóknum á bakteríudrepandi peptíðum og einn af fremstu fræðimönnum heims á sviði innbyggða ónæmiskerfisins. Þannig rannsakar hann fyrstu varnir manna og dýra við sýkingum og samspil hýsils og sýkils. Í því sambandi hefur hann m.a. sýnt fram á að margir sýklar draga úr tjáningu bakteríudrepandi peptíða í þekjum sem auðveldar þeim innrás í líkamann. Guðmundur Hrafn er höfundur tæplega eitthundrað vísindagreina á sviði tilraunavísinda og margar þeirra hafa birst í tímaritum með háan áhrifastuðul og eru skráðar um níu þúsund tilvitnanir í verk hans.

Guðmundur Hrafn er gestaprófessor við Karólínsku stofnunina og annar stofnandi sprotafyrirtækisins Akthelia sem sérhæfir sig í að koma efnum er örva framleiðslu bakteríudrepandi peptíða á markað, sem nýrri tegund lyfja með breiðvirk áhrif á sýkla,“ segir í umsögn valnefndar.

Hér má sjá fréttina í heild