Göngum saman styrkir vísindamenn HÍ til rannsókna á brjóstakrabbameini
Fjórir vísindamenn og nemendur við Háskóla Íslands hlutu rannsóknarstyrki úr styrktarsjóði Göngum saman til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini. Styrkirnir voru afhentir við hátíðlega athöfn þann 28. október og nema samanlagt 10,5 milljónum króna.
Þetta var í fjórtánda skipti sem Göngum saman veitir styrki til rannsókna á brjóstakrabbameini. Vísindamenn Háskólans hafa frá upphafi notið mikillar velvildar samtakanna sem hafa samanlagt lagt nær 120 milljónir króna til brjóstakrabbameinsrannsókna.
Eftirtaldir aðilar fengu styrk að þessu sinni:
Kristinn Ragnar Óskarsson, nýdoktor við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, hlaut 3 milljónir króna til verkefnisins „Skoðun á breytingu í bindingu krabbameinsvaldandi stökkbrigða af FoxA1 við litnisagnir“.
María Rose Bustos, meistaranemi í líf- og læknavísindum við Háskóla Íslands, hlaut 2,7 milljónir króna til verkefnisins „Brjóstaæxli BRCA2999Δ5 arfbera“.
Snædís Ragnarsdóttir, doktorsnemi í líf- og læknavísindum við Háskóla Íslands, hlaut 2,3 milljónir króna til verkefnisins „BRCA2 stökkbreyting, tap á villigerðarsamsætu og meðferð“.
Snævar Sigurðsson, rannsóknasérfræðingur við Lífvísindasetur Háskóla Íslands, hlaut 2,5 milljónir króna til verkefnisins „Heildstæð úttekt á gena og prótín tjáningu í brjóstastofnfrumulínu D492 í tvívíðri og þrívíðri rækt og í myndun greinóttra formgerðar og bandvefsumbreytingu“.
Styrkveitingin fór fram í Hannesarholti og söng tónlistarkonan Ingibjörg Steingrímsdóttir nokkur lög við það tækifæri.
Ljósmyndin er frá úthlutun styrkjanna í Hannesarholti. Frá vinstri: Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Snævar Sigurðsson, Snædís Ragnarsdóttir, María Rose Bustos, Kristinn Ragnar Óskarsson og Gunnhildur Óskarsdóttir, formaður og stofnandi Göngum saman.
Um Göngum saman
Styrktarsjóður Göngum saman styrkir grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini. Styrkveitingin byggist að mestu leyti á frjálsum framlögum einstaklinga sem hafa lagt hafa sitt af mörkum með þátttöku í fjáröflunum félagsins. Þær voru margvíslegar í ár, s.s. Þórsmerkurferð með Volcano Trails, kaup á Brjóstasnúðum Brauð&co í tilefni Mæðradagsins og kaup á ýmsum söluvarningi félagsins. Einnig hafa ýmis félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar lagt Göngum saman lið en megináhersla er á að öll framlög renni óskipt í styrktarsjóð félagsins. Göngum saman hefur veitt nær 120 milljónir króna til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini frá stofnun félagsins árið 2007.