Hildur Magnúsdóttir og Katrín Möller á meðal sex styrkhafa Eggertssjóðs 2022

Mon, 28/11/2022 - 09:51 -- skb

Veittir hafa verið sex styrkir úr Eggertssjóði til rannsókna í jarð- og lífvísindum við Háskóla Íslands. Styrkirnir nema samtals 5,9 milljónum króna og voru afhentir við athöfn í Hátíðasal HÍ 23. nóvember sl.

Tilgangur Eggertssjóðs er að styrkja rannsóknir á sviði jarðfræði og líffræði og renna vísindastyrkirnir í ár til fjölbreyttra rannsókna og tækjakaupa á þeim sviðum.

Hildur Magnúsdóttir, nýdoktor við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði Keldum, hlaut styrk til sýnatöku á beitukóngum í Breiðafirði og til að greiða kostnað vegna birtinga greina.

Samþróun sníkjudýra og hýsla þeirra er mikilvægur drifkraftur líffræðilegs fjölbreytileika og sníkjudýr geta haft mikil áhrif á virkni vistkerfa. Rannsóknum á samspili sníkjudýra og hýsla í sjávarvistkerfum er ábótavant, sérstaklega í botnlægum vistkerfum. Í slíkum vistkerfum treysta sníkjudýr eins og ögður mikið á sjávarsnigla sem millihýsla, ekki síst stóra, langlífa snigla úr Buccinoidea-yfirættinni sem gegna mikilvægu hlutverki í sjávarvistkerfum sem rándýr, bráð og hýslar. 

Í þessari rannsókn verður samþróun mismunandi Buccinoidea-sjávarsnigla og ögðutegunda þeirra í Norður-Atlantshafi rannsökuð. Til að byrja með mun beitukóngur, Buccinum undatum, í Breiðafirði vera notaður til grundvallar og prófunar á rannsóknaraðferðum verkefnisins en útlits- og erfðabreytileiki hans á því svæði er afar mikill. Aðferðirnar verða síðan yfirfærðar á aðrar tegundir í Buccinoidea-yfirættinni í Norður-Atlantshafi með það að markmiði að skilgreina þær ögðutegundir sem nýta þær sem millihýsla og kortleggja þróunarfræðilegt og vistfræðilegt samspil hýsils og sníkils.  

Katrín Möller, nýdoktor við Læknadeild, hlaut styrk vegna rannsóknar á svokallaðri genatjáningu og DNA metýlun á taugafrumum.

Utangenaerfðakerfið er stór hópur prótína sem ýmist lesa, skrifa eða fjarlægja merki á erfðaefni fólks og histónum, sem eru prótín sem pakka niður erfðaefninu, og hafa með því víðtæk áhrif á genatjáningu frumna. Stökkbreytingar í þessum hópi prótína leiða nánast alltaf til taugaþroskaskerðingar í einstaklingum sem þær bera. Því er líklegt að utangenaerfðakerfið gegni mikilvægu hlutverki í taugaþroska en lítið er vitað með hvaða hætti. Miklar breytingar á genatjáningu fara fram við sérhæfingu og þroska taugafrumna. Minna er vitað um hvort og hvernig gen breyta um tjáningu ísóforma í þessu ferli, en ísóform eru mismunandi tegundir RNA-sameinda sem framleiddar eru af sama geni. Í þessu verkefni er ætlunin að nýta nýja raðgreinitækni (e. Nanopore sequencing) og nýtt taugafrumulíkan til að skoða hvort sérhæfingarferli taugafrumna feli í sér breytingar á tjáningu ísóforma og þá sérstaklega hvort gen úr utangenaerfðakerfinu breyti um ísóform við taugafrumuþroska. Niðurstöðurnar munu leiða til betri skilnings á utangenaerfðakerfinu og áhrifum þess á þroskaferli taugafrumna.

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá styrkþega ásamt rektor, stjórn Eggertssjóðs og gestum við athöfnina.

Fréttina í heild sinni má nálgast á vef Háskóla Íslands

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is