Þann 11. október 2022 veitti Göngum saman 15 milljónum króna í rannsóknarstyrki til vísindamanna á sviði grunnrannsókna á brjóstakrabbameini. Í þau 15 ár sem Göngum saman hefur starfað hefur félagið stutt dyggilega við málaflokkinn og úthlutað vel á annað hundrað milljónum samtals í árlegum styrkúthlutunum til vísindarannsókna. Styrkveitingarnar hafa því skipt sköpum fyrir brjóstakrabbameinsrannsóknir á Íslandi í árabil. Styrkveitingin fór fram í Hannesarholti þar sem 24 félagar úr Fóstbræðrum glöddu viðstadda með söng sínum.
Fimm aðilar fengu styrk að þessu sinni:
Aldís María Antonsdóttir, meistaranemi í lífeindafræði við Háskóla Íslands hlaut 2,5 milljónir króna til verkefnisins „Hlutverk peroxidasin (PXDN) í meinvarpandi brjóstakrabbameini“.
Alexander Örn Kárason, meistaranemi í lífeindafræði við Háskóla Íslands hlaut 2,5 milljónir króna til verkefnisins „Óstöðugir telomerar í BRCA2 vanvirkum brjóstafrumulínum í tengslum við nýja marksækna meðferð gegn POLQ og RAD52“.
Berglind Eva Benediktsdóttir, dósent í lyfjafræði við Háskóla Íslands hlaut 2,5 milljónir króna til verkefnisins „Sérhannaðar utanfumubólur með sækni gegn þríneikvæðum brjóstakrabbameinum“.
Kristrún Ýr Holm, doktorsnemi í heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands, hlaut 4 milljónir króna til verkefnisins „Leit að lífmerkjum fyrir snemmgreiningu brjóstakrabbameina“.
María Rose Bustos, rannsóknamaður við Háskóla Íslands, hlaut 3,5 milljónir króna til verkefnisins „Tap á arfblendni og tjáning estrógen viðtaka í brjóstakrabbameinum BRCA2999Δ5 arfbera“.
Á myndinni má sjá frá vinstri: Maríu Rose, Kristrúnu Ýr, Gunnhildi Óskarsdóttur formann og stofnanda Göngum saman, Alexander Örn, Aldísi Maríu og Berglindi Evu.
Hér má sjá fleiri myndir sem teknar voru af Þórdísi Erlu ljósmyndara við styrkafhendinguna.