Hljóta árfundarverðlaun fyrir uppbyggingu innviða við HÍ

Mon, 20/06/2022 - 14:42 -- skb

Hópur vísindamanna og annars starfsfólks sem stendur að umfangsmiklum innviðaverkefnum við Háskóla Íslands tók við ársfundarverðlaunum skólans í Hátíðasal Aðalbyggingar 15. júní að viðstaddri Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Innviðirnir snerta vísindastarf á öllum fræðasviðum skólans.

Ársfundaverðlaunin voru nú afhent í fjórða sinn en þau eru veitt árlega hópum eða teymum sem þykja hafa sýnt  sérstakt frumkvæði og forystu við uppbyggingu framúrskarandi starfs innan skólans. Handhafar ársfundarverðlauna HÍ eru valdir í sameiningu af rektor og forsetum allra fimm fræðasviða Háskóla Íslands.

„Með verðlaununum er undirstrikað að alla daga er unnið þrotlaust og merkilegt starf innan Háskóla Íslands – starf sem verðskuldar viðurkenningu, hvort sem það er á sviði náms og kennslu, rannsókna og nýsköpunar, jafnréttismála, samfélagsþátttöku eða frumkvæðis nemenda,“ sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, þegar verðlaunin voru afhent á ársfundi skólans að viðstöddu fjölmenni. 

Alls fengu átta aðilar tengdir innviðaverkefnum innan skólans viðurkenningu. Á meðal þeirra eru tvö verkefni á vegvísi Innviðasjóðs sem aðilar á Lífvísindasetri leiða, en þau eru:

Efnagreining, frá frumefnum til lífsameinda
Verkefnið miðar að því að byggja upp og bæta aðgengi að innviðum í efnagreiningum sem nýtast munu við rannsóknir, þróun og nýsköpun í læknisfræði, lyfjafræði, líffræði, lífefnafræði, sameindalíffræði, líftækni, næringar- og matvælafræði, efnafræði, efnaverkfræði og heilbrigðisverkfræði. Óttar Rolfsson prófessor í kerfislíffræði við Læknadeil HÍ tók við verðlaununum fyrir hönd hópsins.

Frá sameindum til sniðlækninga: Heildstæð aðstaða fyrir nútímalífvísindi 
Verkefnið miðar að því að byggja upp fullkomna rannsóknaraðstöðu fyrir lífvísindi í landinu sem nýst getur við greiningar DNA- og RNA-sameinda, erfðabreytingar á frumum og dýrum og til að auka tengsl lífvísindarannsókna við klínískar rannsóknir. Jóna Freysdóttir prófessor í ónæmisfræði við Læknadeild HÍ tók við verðlaununum fyrir hönd hópsins.

Fréttina í heild sinni og upplýsingar um aðra verðlaunahafa má finna á vef HÍ.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is