Auður Anna Aradóttir Pind doktor í líf- og læknavísindum

Fri, 27/05/2022 - 00:00 -- skb

Miðvikudaginn 25. maí varði Auður Anna Aradóttir Pind doktorsritgerð sína í líf- og læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Samanburðarrannsókn á áhrifum ónæmisglæða á myndun og viðhald vessabundins ónæmissvars eftir bólusetningu nýburamúsa. Comparative analysis of adjuvants’ effects on induction and persistence of humoral immune responses after neonatal immunization. Rannsóknin var unnin við ónæmisfræðideild Landspítala og læknadeild Háskóla Íslands. 

Andmælendur voru Dr. Ed C. Lavelle, prófessor við Trinity College í Dublin, Írlandi, og Dr. Anja Erika Hauser, prófessor við Charité & Deutsches Rheuma-Forschungszentrum í Berlín, Þýskalandi.

Leiðbeinendur voru Ingileif Jónsdóttir, prófessor og Stefanía P. Bjarnarson, dósent. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Ásgeir Haraldsson, prófessor, Erna Magnúsdóttir, dósent og dr. Þórunn Ásta Ólafsdóttir.

Þórarinn Guðjónsson, prófessor og deildarforseti Læknadeildar, stjórnar athöfninni sem fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands.

Ágrip

Ónæmiskerfi ungviðis er frábrugðið ónæmiskerfi fullorðinna og svarar áreiti frekar með ónæmisþoli en bólguhvetjandi svörum, sem gerir nýbura næmari fyrir sýkingum og þeir svara bólusetningum oft illa. Stór hluti bóluefna í klínískri þróun inniheldur ónæmisvaka sem eru framleiddir með erfðatækni sem vekja oft lítil ónæmissvör einir og sér. Það hefur leitt til áhuga á notkun ónæmisglæða í bóluefnum til að auka ónæmissvörun. Samt sem áður er alum eini ónæmisglæðirinn sem leyfilegt er að nota í bóluefnum nýbura. Því er vaxandi þörf fyrir nýja, örugga og virka ónæmisglæða til notkunar í nýburabólusetningum sem og rannsóknum sem skilgreina hvaða ferla og frumur þeir virkja til að yfirvinna takmarkanir í ónæmiskerfi nýbura og framkalla öflugt ónæmissvar.

Í verkefninu var gerð samanburðarrannsókn á hæfni ónæmisglæðanna LT-K63, mmCT, MF59®, IC31® og alum til að auka myndun og viðhald vessabundinna ónæmissvara eftir bólusetningu 7 daga gamalla músaunga. TNF viðtakarnir BAFF-R og BCMA og bindlar þeirra BAFF og APRIL eru mikilvægir fyrir vessabundið ónæmissvar. Sýnt var fram á að ónæmisglæðarnir LT-K63, mmCT, MF59® og IC31®, en ekki alum, juku bæði myndun og viðhald vessabundins ónæmissvars í nýburum þegar þeim var blandað með bóluefni. Eins og tilgátan var virðast TNF viðtakar og bindlar þeirra vera mikilvægir bæði fyrir myndun og viðhald ónæmissvara nýbura. Aukin tjáning viðtakanna BAFF-R og BCMA og bindlanna BAFF og APRIL hélst í hendur við kröftug og viðvarandi ónæmissvör eftir bólusetningu nýburamúsa. Því hefur verið varpað ljósi á líffræðilega ferla sem æskilegt er að ónæmisglæðar ræsi til framköllunar á öflugu og viðvarandi ónæmissvari í nýburum og skilgreint lífvísa sem má nota við greiningu og mat á mögulegum ónæmisglæðum til bólusetninga ungviðis.

English abstract

The neonatal immune system is distinct from the immune system of older individuals and is prone to induce tolerance rather than pro-inflammatory responses, leaving neonates particularly vulnerable to infections and poor responders to vaccination. A large proportion of vaccine candidates currently in clinical development contain purified recombinant antigens which are often poorly immunogenic on their own. This has driven the interest in adjuvants in modern vaccines to enhance vaccine immunogenicity and efficacy. However, alum is the only adjuvant currently licensed for use in neonatal vaccines. Thus, there is an unmet need for safe and effective novel adjuvants to use in early life vaccinology, as well as defining their mechanisms of action and evaluating adjuvants’ abilities to overcome limitations of the early life immune system.

In this project, a comparative analysis of the potentials of the adjuvants LT-K63, mmCT, MF59®, IC31® and alum was performed to enhance induction and persistence of humoral immune responses after immunization of neonatal (7 days old) mice. Tumour necrosis factor superfamily receptors (TNF-R) BAFF-R and BCMA and their ligands BAFF and APRIL are important for the humoral immune response. It was demonstrated that in contrast to alum, the adjuvants LT-K63, mmCT, MF59® and IC31® enhanced both the induction and the persistence of humoral immune responses following neonatal immunization. As hypothesized, TNF-Rs and their ligands seem to play important roles both in induction and persistence of humoral immune responses. Upregulation of BAFF-R and BCMA and their ligands BAFF and APRIL by adjuvants associated with robust and sustained vaccine-specific responses. Thus, a light has been shed on molecular mechanisms that should be triggered by vaccine adjuvants to enhance induction and persistence of humoral immune responses following immunization in early life. These novel markers of adjuvanticity that have been defined can serve as biomarkers to be examined in discovery and assessments of potential adjuvants for use in the paediatric population.

Um doktorsefnið

Auður Anna Aradóttir Pind er fædd árið 1990 í Reykjavík. Hún lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut I frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 2010, BS-prófi í lífefnafræði frá Háskóla Íslands árið 2013 og meistaraprófi í líf- og læknavísindum frá sama skóla árið 2015. Auður starfaði sem stundakennari í ónæmisfræði hjá Háskóla Íslands samhliða doktorsnámi sínu og tók nýverið við stöðu verkefnastýru Graduate Program in Molecular Life Sciences (GPMLS). Foreldrar hennar eru Ari Skúlason hagfræðingur og Jane M. Pind kennari. Auður er gift Hermanni Þráinssyni viðskiptafræðingi og eiga þau soninn Egil Ara.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is