Klínísk einkenni sumarexems hjá hrossum eru tengd samtímis næmingu fyrir mörgum Culicoides ofnæmisvökum

Wed, 24/11/2021 - 14:11 -- skb

Sumarexem í hestum er ofnæmi fyrir próteinum (ofnæmisvökum) í munnvatni Culicoides tegunda sem sjúga blóð úr hrossum. Þær tegundir lifa ekki á Íslandi og sjúkdómurinn því óþekktur hér á landi. Ofnæmið er hins vegar alvarlegt vandamál í íslenskum hestum sem fluttir hafa verið úr landi.

Rannsökuð var næming gegn Culicoides hjá íslenskum sumarexemshestum (alls 31) sem fluttir höfðu verið til Sviss. Mælt var sérvirkt IgE í sermi hestanna þrjú ár í röð; ári fyrir klínísk einkenni, þegar einkenni komu fram og árið eftir. Þetta var gert með örflögutækni á 27 endurröðuðum ofnæmisvökum. Marktæk næming mældist árið sem klínísk einkenni komu fram en ekki fyrr. Hestarnir næmast samtímis gegn mörgum ofnæmisvökum eða að meðaltali ellefu. Níu aðalofnæmisvakar sem næma hestana fyrsta árið hafa verið skilgreindir og framleiddir og því hægt að nota þá í ofnæmisvaka sértækri bólusetningu bæði sem forvörn og í afnæmingu. 

Rannsókninni er lýst nánar í nýútkominni grein sem unnin var í samvinnu við íslenska vísindamenn:

Birras J, White SJ, Jonsdottir S, Novotny EN, Ziegler A, Wilson AD, Frey R, Torsteinsdottir S, Alcocer M, Marti E. First clinical expression of equine insect bite hypersensitivity is associated with co-sensitization to multiple Culicoides allergens. PLoS One. 2021 Nov 15;16(11):e0257819. doi: 10.1371/journal.pone.0257819. eCollection 2021.        

Á myndinni má sjá hest með sumarexem.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is