Iwona Teresa Myszor doktor í líffræði

Mon, 08/02/2021 - 12:20 -- skb

Iwona Teresa Myszor varði doktorsritgerð sína Áhrif aroyl phenílenedíamína og þrýstingsálags á ónæmisþætti lungnaþekjunnar (Effects of aroylated phenylenediamines and mechanical stress on lung epithelial immunity) föstudaginn 5. febrúar frá Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.

Andmælendur:
Dr. Henk P. Haagsman, prófessor við Department Biomolecular Health Sciences, Utrecht University, Hollandi
Dr. Sif Hansdóttir, yfirlæknir lungnalækninga við Landspítala Háskólasjúkrahús og aðjunkt við Læknadeild Háskóla Íslands

Leiðbeinandi: Dr. Guðmundur Hrafn Guðmundsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands

Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Þórarinn Guðjónsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands
Dr. Sigurbergur Kárason, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir gjörgæslulækninga á Landspítala Háskólasjúkrahúsi
Dr. Margrét Helga Ögmundsdóttir, dósent við Læknadeild Háskóla Íslands

Doktorsvörn stýrir: Dr. Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor og deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands

Ágrip: Náttúrulegt ónæmi lungnaþekju myndar virkt varnarkerfi með seytingu örverudrepandi peptíða, myndun þéttitengja og sjálfsáti. Varnarkerfið virkjast með örvun viðtaka í þekjunni og getur leitt til þess að bakteríum er eytt, þéttni þekjunnar aukist og að virkni leysikorna sé örvuð. Með því að hafa áhrif á boðleiðir fyrir náttúrulegt ónæmi með sérhæfðum efnum má örva kerfið til að verjast sýkingum. Notkun á efnum sem örva boðleiðir þekjuvarna eru áhugaverður möguleiki tengdur sýkingum en einnig í öndunarvélatengdum lungnaskaða (ÖTL) til að hindra brátt andnauðarheilkenni (BAH) sjúklinga í öndunarvél.

Markmið verkefnisins var að rannsaka áhrif nýrra örvunarefna, aroylated phenylenediamin (APD) efna á náttúrulegt ónæmi og skoða áhrif þrýstings og slitálags á þekjuvarnakerfið.
Ný APD örvunarefni HO53 og HO56 juku tjáningu örverudrepandi efna í lungnaþekju og drógu úr innrás baktería í þekjufrumur. Bæði APD efnin sýndu samverkan með vítamín D fyrir örvun á CAMP cathelicidin geninu og HO53 virkjaði STAT3 umritunarþáttinn í þeirri örvun. Meðhöndlun á skautuðum þekjufrumum með HO53 styrkti þekjuna og jók sjálfsát. HO53 hafði víðtæk áhrif á genatjáningu í frumunum sérstaklega tjáningu umbreytiensíma fyrir históna, en örvaði jafnframt AMPK boðleiðina og virkjaði TFEB umritunarþáttinn. Þrýstingsálag í sérhönnuðu tæki CPAD (e. cyclical pressure air-liquid device) hafði áhrif á útlit þekjunnar og tjáningu lífmerkja (e. biomarkers) fyrir ÖTL, BAH og bólgumiðla. Fyrsta athugun sýnir að HO53 efnið eykur á bólguviðbragð sem örvað hafði verið með þrýstingsálagi.

Um doktorsefnið: Iwona Teresa Myszor fæddist í Póllandi 27. nóvember árið 1991. Hún lærði líffræði við Jagiellonian University í Kraká og útskrifaðist með BSc-gráðu árið 2013 og meistaragráðu í lífefnafræði árið 2015.  Að lokinni meistaragráðu fór Iwona til London í Erasmus Plus þjálfun við Medical Research Council Centre for Molecular Bacteriology and Infection, við Imperial College. Árið 2016 var hún á Institute of Pharmacology við pólsku vísinda-akademíuna í Kraká. Iwona hóf doktorsnám í líffræði við Líf og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands í janúar 2017 og stundaði rannsóknir sínar á Lífvísindasetri Háskóla Íslands.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is