Bitflugu ofnæmisvakar sem valda sumarexemi í hestum greindir með örflögutækni

Mon, 07/09/2020 - 16:38 -- skb

Bæði menn og skepnur geta myndað ofnæmi eftir bit blóðsjúgandi skordýra. Sumarexem í hestum er IgE miðlað exem af völdum próteina eða ofnæmisvaka sem bitflugur af ættkvíslinni Culicoides spýta inn um leið og þær bíta. Á þriðja tug mismunandi ofnæmisvaka sem eiga uppruna í Culicoides munnvatnskirtlum hafa verið einangraðir og framleiddir sem endurröðuð prótein. Til þess að kortleggja próteinin sem valda exeminu var gerð örflaga með 27 ofnæmisvökum framleiddum í mismunandi tjáningarkerfum. Sermi úr 347 hestum 148 heilbrigðum og 199 með sumarexem var prófað fyrir IgE bindingu á örflögunni. Á 25 ofnæmisvökum var binding IgE í sermi sumarexemshesta marktækt meiri en í kontrólsermum, níu prótein reyndust aðalofnæmisvakar þ.e. bundu IgE úr > 50% sumarexemshestanna og sjö þeirra bundu IgE úr >70% þeirra. Ef blanda af þessum sjö vökum er notuð má greina >90% af sumarexemshestum með >95% sérvirkni. Örflagan er grundvöllur þess að hægt sé að þróa ofnæmisvakasérhæfða ónæmismeðferð gegn sumarexemi og mun einnig nýtast við rannsóknir á ofnæmi í fólki gegn bitflugum svo sem lúsmýi. 

Rannsókninni er lýst nánar í nýútkominni grein sem unnin var í samvinnu við íslenska vísindamenn:

Component-resolved microarray analysis of IgE sensitization profiles to Culicoides recombinant allergens in horses with insect bite hypersensitivity. Ella N. Novotny, Samuel White, Wilson AD, Sara B. Stefánsdóttir, Edwin Tijhaar, Sigridur Jonsdottir, Rebekka Frey, Dania Reiche, Horst Rose, Claudio Rhyner, Gertraud Schüpbach-Regula, Sigurbjörg Torsteinsdottir, Marcos Alcocer, Eliane Marti. Allergy. 2020 Aug 11. doi: 10.1111/all.14556. Online ahead of print.

 

Mynd Culicoides spp

Karl Skírnisson

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is