Óttar Rolfsson og Ólafur Eysteinn Sigurjónsson hljóta Vísinda- og nýsköpunarverðlaunum HÍ í flokki Heilbrigðis og heilsu

Tue, 12/05/2020 - 13:52 -- skb

Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands, sem hétu áður Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands, voru nú veitt í 22. sinn en keppnin er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, Árnason|Faktor, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Auðnu-tæknitorgs. Samkeppnin var opin bæði starfsfólki og stúdentum af öllum fræðasviðum Háskóla Íslands og bárust alls 38 tillögur að þessu sinni sem er metfjöldi.

Veitt verðlaun fyrir bestu hugmyndirnar í fjórum flokkum: Heilsa og heilbrigði, Tækni og framfarir, Samfélag og Hvatningarverðlaun auk þess sem sigurvegari keppninnar var valinn úr hópi verðlaunahafa í flokkunum. Vegna fjölda tillagna var úr vöndu að ráða fyrir dómnefnd keppninnar en við mat á umsóknum horfði hún m.a. til nýnæmis og frumleika, útfærslu, samfélagslegra áhrifa, m.a. út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, og hvort verkefnið væri í samræmi við stefnu skólans og styddi við starfsemi hans.

Verðlaun í flokknum Heilsa og heilbrigði, samtals að upphæð 1,5 milljónir króna, hlaut verkefnið „Auðkenning og einangrun virkra efna úr blóði“. Verkefnið er sprottið upp úr áralöngu samstarfi Háskóla Íslands og Blóðbankans en ætlunin er að kanna hvort og á hversu mikið magn svokallaðs lífvirks lípíðs er að finna í blóðafurðum sem falla til í sláturhúsum landsins. Lípíð eru sameindir sem eru mikilvægar í æðamyndun og sáragróanda og mætti því mögulega nýta það við sáragræðslu. Dómnefnd verðlaunanna bendir á að verkefnið geti haft afar jákvæð áhrif á bæði heilsu fólks og umhverfi þess auk þess að bera rannsóknum innan Háskóla Íslands gott vitni hvað varðar hugmyndaauðgi, fagmennsku og samstarf innan og utan skólans.  

Að verkefninu koma Óttar Rolfsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, Freyr Jóhannsson lífefnafræðingur og Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, klínískur prófessor og líffræðingur á Landspítala.

Upplýsingar um aðra vinningshafa má finna í frétt á vefsíðu Háskóla Íslands.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is