Nóbelsverðlaunin í efnafræði í ár sem komu í hlut þeirra dr. Emmanuelle Charpentier og prof. Jennifer A. Doudna standa vísindamönnum nærri sem fást við rannsóknir á erfðaeiginleikum. Þær uppgötvuðu kerfi sem bakteríur nýta, s.k. CRISPR/Cas9, sem hefur valdið byltingu í að koma nákvæmum breytingum inn í erfðaefni. Þessi aðferðafræði, sem er einungis 8 ára gömul, var fljólega tekin upp af mörgum rannsóknahópum Lífvísindaseturs og nýtt til að rannsaka áhrif ýmissa stökkbreytinga á framgang sjúkdóma í frumuræktum. Aðferðin hefur jafnframt verið sett upp í sebrafiska-módellífverum hér á landi auk þess sem nýta má CRISPR/Cas9 til að rannsaka þekkta erfðagalla í músamódelum. Þessi byltingakennda aðferð er líkleg til að nýtast við meðferð krabbameina og til genaleiðréttinga í heilbrigðisþjónustu í framtíðinni.
Mynd er tekin af síðu Nóbelsverðlaunanna í efnafræði 2020 og má finna allar nánari upplýsingar um verðlaunin þar.