Lífvísindasetur þátttakandi í NordForsk samstarfi um smásjárinnviði

Fri, 24/04/2020 - 16:15 -- skb

Nýverið voru úthlutaðir NordForsk styrkir til samstarfs og uppbyggingar rannsóknainnviða á Norðurlöndum. Eitt af sjö styrktum verkefnum er Bridging Nordic Microscopy Infrastructures, BNMI sem Lífvísindasetur Háskóla Íslands er þátttakandi í. Er um að ræða samstarfsnet smásjársetra við akademískar stofnanir á öllum Norðurlöndunum þar sem áhersla er lögð á fræðslu, samvinnu og uppbyggingu á nýjustu smásjártækni á sviði lífvísinda. Er ljóst að ávinningur Lífvísindaseturs mun verða gríðarlegur á styrktímabilinu í formi þjálfunar nemenda og starfsfólks, aukinnar samvinnu við norrænar stofnanir og uppbyggingu rannsóknainnviða en ein af megin áherslum Lífvísindaseturs hefur verið í uppbyggingu smásjárinnviða. Forsvarsmaður og tengiliður Lífvísindaseturs við verkefnið er Eiríkur Steingrímsson prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands. Heildarstyrkupphæðin nemur 2,5 milljónum norskra króna eða tæpum 35 milljónum íslenskra króna. Samstarfsstofnanir leggja að auki til tvöfalda þá upphæð til samstarfsins.

Alls sóttu 33 verkefni um styrk og var árangurshlutfallið því um 20%.

Nánari umfjöllun um styrkúthlutunina er að finna í frétt á heimasíðu NordForsk.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is