Ný íslensk rannsókn sýnir tengsl BRCA1 erfðabreytileika við krabbameinsmyndun.

Mon, 11/11/2019 - 10:35 -- skb

Ný íslensk rannsókn frá sameindameinafræðieiningu meinafræðideildar Landspítala sem birtist nýverið í tímaritinu genes um breytileika í BRCA1 geni sýnir tengsl við myndun krabbameina. Breytingin hefur mikla sérstöðu meðal BRCA1 breytinga almennt. Aðalgeir Arason og Rósa Björk Barkardóttir stýrðu rannsókninni.

Í rannsókninni er einkennum breytingarinnar c.4096+3A>G í splæsiseti í BRCA1 geninu lýst í íslenskum ættum og í æxlissýnum úr þessum ættum. Breytingin er sjaldgæf á heimsvísu og ekki hafði verið ljóst hvort hún væri skaðleg í arfberum, eða bara saklaus erfðabreytileiki. Í ættunum reyndust flest brjósta- og eggjastokkakrabbamein koma fyrir í arfberum (carriers), miðað við þá sem voru arffríir (non-carriers). Æxlissýni úr arfberum báru skýr merki um meðfædd BRCA1 áhrif. Í ættunum voru eggjastokkakrabbamein tíð, og nær undantekningalaust tengd þessari breytingu, þ.e. af 12 arfgerðagreindum eggjastokkakrabbameinum voru tíu í arfberum og tvö í arffríum. Breytingin veldur splæsiröskun í svæði sem bendlað er við eggjastokkakrabbamein. Hún hefur algera sérstöðu meðal þekktra BRCA1 breytinga, því þess finnast dæmi að arfberar hennar séu arfhreinir (erfi hana frá báðum foreldrum) og lifi samt við eðlilega heilsu fram á fullorðinsár. Greinin dregur saman það helsta sem vitað er um ákveðin hlutverk BRCA1, í þessu samhengi.

Myndin er úr greininni og tekur saman þekkingu á BRCA1-próteini með áherslu á svæði útraðar 11 (ljósblátt) þar sem breytingin veldur splæsiröskun. Sýnd eru þekkt hneppi (domains) og fosfórunarstaðir. Helstu tengisvæði við önnur prótein eru táknuð á gulum bakgrunni og neðst eru gefin til kynna þekkt splæsibrigði m.t.t. útraðar 11.

Heimild: Arason A, Agnarsson BA, Johannesdottir G, Johannsson OT, Hilmarsdottir B, Reynisdottir I, Barkardottir RB. The BRCA1 c.4096+3A>G Variant Displays Classical Characteristics of Pathogenic BRCA1 Mutations in Hereditary Breast and Ovarian Cancers, But Still Allows Homozygous Viability. Genes (Basel). 2019 Nov 1;10(11). pii: E882. doi: 10.3390/genes10110882.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is