Göngum saman veitir 10 milljónir í styrki til rannsókna á brjóstakrabbameini

Fri, 11/10/2019 - 09:35 -- skb

Fimm nemendur og starfsmenn Háskóla Íslands hlutu fyrr í vikunni styrki til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini frá styrktarfélaginu Göngum saman. Alls námu styrkirnir tíu milljónum króna og hefur Göngum saman samtals veitt rúmar 100 milljónir króna til brjóstakrabbameinsrannsókna frá stofnun félagsins árið 2007. 

Eftirtaldir nemendur og kennarar fengu styrk að þessu sinni: 

Hildur Rún Helgudóttir, meistaranemi í líf- og læknavísindum við Háskóla Íslands, hlaut 500 þúsund krónur til verkefnisins „Ummyndunaráhrif HER2 yfirtjáningar í krabbameinsframvindu“.    

Ólöf Gerður Ísberg, doktorsnemi í lyfjavísindum við Háskóla Íslands, hlaut tvær milljónir króna til verkefnisins „Smásameindir í greiningu brjóstakrabbameina“.    

Pétur Orri Heiðarsson, lektor við Háskóla Íslands, hlaut 2,9 milljónir króna til verkefnisins „Hlutverk óreiðusvæða fyrir virkni umritunarþáttarins FoxA1“.

Salvör Rafnsdóttir, doktorsnemi í læknavísindum við Háskóla Íslands, hlaut tvær milljónir króna til verkefnisins „Stjórnun kæliviðbragðs frumna, mat á mögulegum meðferðarmöguleika fyrir ífarandi brjóstakrabbamein“.

Stefán Þ. Sigurðsson, dósent við Háskóla Íslands, hlaut 2,6 milljónir króna til verkefnisins „Brjóstakrabbamein íslenskra karla, vægi stökkbreytinga í DNA viðgerðargenum“.

Um Göngum saman

Styrktarsjóður Göngum saman styrkir grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini. Styrkveitingin í ár byggist að mestu leyti á frjálsum framlögum einstaklinga sem hafa lagt hafa sitt af mörkum með þátttöku í fjáröflunum félagsins, s.s. Reykjavíkurmaraþoninu og kaupum á söluvarningi félagsins. Einnig hafa ýmis félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar lagt Göngum saman lið, en megináhersla er á að öll framlög renni óskipt í styrktarsjóð félagsins. Frá stofnun félagsins hefur ríflega 100 milljónum króna verið úthlutað til íslenskra rannsóknaraðila á sviði brjóstakrabbameins. 

Nánari upplýsingar um félagið er að finna á vef Göngum saman.

Mynd er frá úthlutun styrkjanna. Frá vinstri: Gunnhildur Óskarsdóttir, formaður Göngum saman, Stefán Þ. Sigurðsson, Hildur Kristjánsdóttir f.h. dóttur sinnar Salvarar Rafnsdóttur, Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands og verndari Göngum saman, Pétur Orri Heiðarsson, Salvör Ísberg f.h. systur sinnar Ólafar Gerðar Ísberg, Hildur Rún Helgudóttir og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. MYND/Kristinn Ingvarsson

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is