Ný rannsókn um smitferil gammaherpesveira í folöldum

Fri, 28/06/2019 - 13:26 -- skb

Nýlega birtist vísindagreind í PLOS ONE um áhrif móðurmótefna á magn gammaherpesveira og mótefnasvars hjá folöldum. Fyrir rannsókninni fóru vísindamenn á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum ásamt samstarfshópum við háskólann í Bern í Sviss og Cornell háskóla í Bandaríkjunum.

 

Hestar hýsa tvær gerðir gammaherpsveira, EHV-2 og EHV-5. Folöld smitast af móður og fá ónæmisvarnir frá henni með broddmjólk fyrstu mánuðina, þar til ónæmiskerfið er þroskað. Markmið verkefnisins var að kanna smitferil gammaherpesveira í folöldum og mæðrum þeirra frá köstun að tveggja vetra aldri. Tekin voru blóð- og nefstrokssýni úr 15 folöldum fyrstu tvö æviárin og úr mæðrunum sex mánuði eftir köstun. EHV-2 ræktaðist fyrst úr 5 daga gömlu folaldi og EHV-5 á degi 12, fyrr en áður hefur verið birt. Með erfðamögnun fannst EHV-2 fyrst á degi 2 og EHV-5 á degi 11. Engin sértæk EHV-2/5 mótefni greindust hjá folöldunum áður en þau komust á spena, en EHV-2/5-IgG mótefni mældust strax eftir inntöku á broddmjólk. Mótefnin féllu jafnt og þétt og voru í lámarki við 2-4 mánaða aldur, á sama tíma og mest fannst af EHV-2. Við 3 mánaða aldurinn voru folöldin jafnframt öll jákvæð í veiruræktun. Á hinn bóginn fannst mest af EHV-5 í folöldunum þegar þau voru í kringum eins árs. Magn móðurmótefna hafði greinileg áhrif á veirubyrgði og eigin mótefna framleiðslu folaldanna.  

Rannsóknin var styrkt af Rannsóknasjóði Rannís, Rannsóknasjóður Háskóla Íslands, Framleiðnisjóði landbúnaðirins og Stofnverndarsjóður íslenska hestsins.

Nánar: Lilja Þorsteinsdóttir, Sigríður Jónsdóttir, Sara Björk Stefánsdóttir, Valgerður Andrésdóttir, Bettina Wagner, Eliane Marti, Sigurbjörg Þorsteinsdóttir og Vilhjálmur Svansson. The effect of maternal immunity on the equine gammaherpesvirus type 2 and 5 viral load and antibody response. PLoS One. 2019 Jun 21;14(6):e0218576. doi: 10.1371/journal.pone.0218576. eCollection 2019.

Á efri myndinni er Lilja Þorsteinsdóttir ásamt folaldinu Leif sem sígur móður sína á neðri myndinni.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is