Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands veitir 60 milljónum til rannsókna

Mon, 13/05/2019 - 09:35 -- skb

10. maí síðast liðann var úthlutað í þriðja sinn úr Vísindasjóði Krabbameinsfélags Íslands. Heildarupphæð styrkja var 60,3 milljónir króna en hæsta styrkinn, 10 milljónir króna, hlaut Erna Magnúsdóttir.

Auglýst var eftir umsóknum um styrki í byrjun febrúar og bárust 18 umsóknir sem fóru til umfjöllunar hjá níu manna Vísindaráði Krabbameinsfélagsins. Lagt var mat á gæði umsóknanna og gerðar tillögur að styrkveitingum fyrir stjórn Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins til að byggja á. Af þeim 12 rannsóknum sem valdar voru eru þrjú verkefni að hljóta styrk úr sjóðnum í þriðja sinn, þrjú hljóta styrk úr sjóðnum í annað sinn og sex verkefni hljóta styrk úr sjóðnum í fyrsta sinn. Heildarupphæð styrkja er 60,3 milljónir króna í ár en var 42,6 milljónir króna þegar fyrst var úthlutað og 55,6 milljónir króna í fyrra.

Markmið Vísindasjóðs Krabbameinsfélags Íslands er að efla íslenskar rannsóknir á krabbameinum á ári hverju með því að styrkja með fjárframlögum rannsóknir á orsökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga. Formaður sjóðsstjórnar er Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdasjóri hjúkrunar á Landspítala og prófessor, en varaformaður er Magnús Karl Magnússon, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.

Af 12 úthlutuðum styrkjum komu 8 í hlut meðlima í Lífvísindasetri Háskóla Íslands, en þau eru:

Erna Magnúsdóttir hlýtur 10.000.000 kr. styrk fyrir verkefnið Sameindaferlar að baki BLIMP1 og EZH2 miðlaðri lifun í Waldenströmsæxlum. Verkefnið er nú styrkt úr sjóðnum í þriðja sinn.

Um 3 milljónir einstaklinga eru greindir með Waldenströmssjúkdóm á hverju ári í heiminum, en sjúkdómurinn er ólæknandi hægfara krabbamein B-eitilfruma. Við höfum með hjálp styrkja frá Krabbameinsfélaginu uppgötvað þætti sem hafa áhrif á það hvort frumur sjúkdómsins lifi eða deyji meðal annars í samhengi við ónæmismeðferð. Með styrknum nú ætlum við að kanna nánar áhrif þessara þátta á eftirlit með frumuskiptingu með það í huga að skilja betur hvernig má koma í veg fyrir að frumur sjúkdómsins lifi af.

„Stuðningur Krabbameinsfélagsins við þetta verkefni hefur skipt sköpum fyrir okkur og hjálpað okkur að afhjúpa ferla sem auka skilvirkni ónæmiskerfisins í að drepa æxlisfrumur. Það er von okkar að þessar niðurstöður leiði til fjölbreyttari meðferðarmöguleika í sjúkómnum.“

Stefán Sigurðsson hlýtur 6.800.000 kr. styrk fyrir verkefnið Stökkbreytingar og sviperfðabreytingar í eggjastokka-, eggjaleiðara- og lífhimnukrabbameini, á Íslandi 1989-2013.

Markmið verkefnisins er að rannsaka þátt ættlægra stökkbreytinga og sviperfðabreytinga í DNA viðgerðargenum á krabbameinsáhættu og sjúkdómsframvindu hjá konum sem greinst hafa með eggjastokkakrabbamein. Mikilvægt er að bera kennsl á æxli sem hafa slíkar breytingar þar sem það stækkar þann hóp þar sem sértæk meðferð gæti hjálpað.

„Styrkurinn er mjög mikilvægur og gerir okkur kleift að rannsaka áhrif stökkbreytinga og sviperfðabreytinga í eggjastokkakrabbameinum með það að leiðarljósi að bæta meðferðarúrræði.“

Guðrún Valdimarsdóttir hlýtur 6.450.000 kr. styrk fyrir verkefnið Samspil TGFβ boðleiðarinnar og Thrombospondin-1, áhrif á samskipti æðaþels- og brjóstakrabbameinsfruma. Verkefnið er nú styrkt úr sjóðnum í þriðja sinn.

Þótt batahorfur brjóstakrabbameinssjúklinga séu góðar þá steðjar aðalógnin af mögulegri meinvarpamyndun. Markmið verkefnisins er að skilja í þaula samspil æðaþels og brjóstakrabbameinsfruma á sameindafræðilegum grundvelli m.t.t. hinnar margslungnu TGF-beta boðleiðar. Sú þekking hefur gífurlegt gildi þegar litið er til meðferðarmöguleika með sértæku sameindalyfi fyrir brjóstakrabbameinssjúklinga til að fyrirbyggja myndun meinvarpa.

„Sú þekking [sem verkefnið skapar] hefur gífurlegt gildi þegar litið er til meðferðarmöguleika með sértæku sameindalyfi fyrir brjóstakrabbameinssjúklinga til að fyrirbyggja myndun meinvarpa.“

Inga Reynisdóttir hlýtur 5.000.000 kr. styrk fyrir verkefnið Aukin tjáning Vacuole Membrane Protein 1 (VMP1) tengist verri horfum sjúklinga með HER2 brjóstakrabbamein.

Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein kvenna. Rannsóknir okkar leiddu í ljós að há tjáning á geni, sem nefnist VMP1, tengist skemmri lifun kvenna, sem greinast með brjóstakrabbamein. Tjáning VMP1 var hæst í HER2 jákvæðum brjóstaæxlum, og er markmið verkefnisins að skilgreina hlutverk gensins í æxlismyndun í HER2 jákvæðum frumulíkönum.

„Styrkurinn er afar mikilvægur fyrir þessa rannsókn og gerir okkur kleift að skilgreina hlutverk VMP1 gensins í brjóstaæxlismyndun, og er það fyrsta skref í átt að frekari meðferðarúrræðum.“

Margrét Helga Ögmundsdóttir hlýtur 5.000.000 kr. styrk fyrir verkefnið Hlutverk sjálfsátsgensins ATG7 í þróun krabbameina. Verkefnið er nú styrkt úr sjóðnum í þriðja sinn.

Krabbameinsfrumur hafa óreglulega stjórnun á niðurbroti og hreinsun (sjálfsáti). Hreinsunarferlið er talið vernda gegn krabbameinsmyndun en síðar er ferlið mikilvægt krabbameinsfrumum til þess að lifa af erfiðar aðstæður. Verkefnið gengur út á að skilgreina hlutverk nauðsynlega sjálfsátsgensins ATG7 í krabbameinum, með það að markmiði að bæta greiningar- og meðferðarmöguleika. 

„Markmið okkar er að varpa ljósi á hlutverk hreinsunar og niðurbrots í krabbameinsfrumum. Við höfum það að leiðarljósi að þekkingin nýtist til þess að bæta meðferðarmöguleika og erum við gríðarlega þakklát að hljóta styrk Vísindasjóðsins til verkefnisins.“

Helga M. Ögmundsdóttir hlýtur 4.745.000 kr. styrk fyrir verkefnið Skimun fyrir virkni nýsmíðaðra lífrænna tin og rhodium sambanda gegn krabbameinsfrumum og skilgreining á verkunarmáta. Verkefnið er nú styrkt úr sjóðnum í annað sinn.

Við Háskóla Íslands eru unnið að smíði á nýjum lífrænum tin- og rhodiumsamböndum. Annað af tveimur tinsamböndum reyndist virkara en krabbameinslyfið cisplatin gegn nokkrum krabbameinsfrumulínum en minna virkt gegn frumulínum sem eru ekki úr krabbameinum. Markmiðið er að rannsaka virkni þessara nýju tin- og rhodiumsamönd með það fyrir augum að finna málmsambönd til þróunar á krabbameinslyfjum.

„Styrkurinn skiptir sköpum. Hann gerir okkur kleift að fylgja eftir mjög spennandi niðurstöðum, sem eru afraksturinn af vinnu fyrir styrkinn sem við fengum í fyrra, og rannsaka frekar sértæka virkni lífrænna tin- og rhodiumsambanda gegn krabbameinsfrumum.“

Rósa Björk Barkardóttir hlýtur 4.334.000 kr. styrk fyrir verkefnið Meinvaldandi áhrif BRCA1 c.4096+3A>G könnuð í frumulíkönum.

Ein af þekktum BRCA1 breytingum er c.4096+3A>G, en ekki er ljóst hve meinvaldandi þessi breyting er og þá hvernig. Við munum nýta CRISPR tæknina til að búa til þessa stökkbreytingu í völdum frumulínum og skoða áhrif hennar á mikilvæga starfsferla frumna.

„Styrkurinn er mjög mikilvægur enda munu niðurstöður rannsóknarinnar mögulega hafa áhrif á erfðaráðgjöf og þá einnig á frekari rannsóknir varðandi meðferðarmöguleika þeirra sem bera stökkbreytinguna.“

Gunnhildur Ásta Traustadóttir hlýtur 2.500.000 kr. styrk fyrir verkefnið Hlutverk peroxidasin í eðlilegum og illkynja brjóstkirtli.

Markmið verkefnisins er að afhjúpa hlutverk prótínsins peroxidasin (PXDN) og þá sameindalíffræðilegu ferla sem stýra tjáningu þess í eðlilegum og illkynja brjóstkirtli. PXDN eykur frumuvöxt, ífarandi vöxt og frumuskrið í eggjastokkakrabbameinsfrumum ásamt því að auka ífarandi vöxt sortuæxlisfruma en hlutverki þess hefur ekki áður verið lýst í brjóstkirtlinum.

„Rannsóknin miðar að því að auka þekkingu á hlutverki stoðvefjaþátta í framþróun krabbameina með það að leiðarljósi að auka skilning á samspili krabbameins og umhverfis.“

Fréttina í heild sinni og upplýsingar um aðra styrkhafa má finna á vef Krabbameinsfélags Íslands.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is