Ný rannsókn á þróun sumarexems í íslenskum hestum eftir útflutning til Sviss

Thu, 15/11/2018 - 14:51 -- skb

Sumarexem í hestum er ofnæmi fyrir próteinum (ofnæmisvökum) í munnvatni smámýstegunda, (Culicoides spp.) sem sjúga blóð úr hrossum. Þær tegundir lifa ekki á Íslandi og sjúkdómurinn því óþekktur hér á landi. Ofnæmið er hins vegar alvarlegt vandamál í íslenskum hestum sem fluttir hafa verið úr landi. Bitmý (Simulium) er landlæg tegund sem bítur hesta á Íslandi. Í rannsókn sem birtist nýverið í tímaritinu Acta Vet Scand var kannað með sérstöku ofnæmisprófi (CAST) hvort bitmýið hefði áhrif á ofnæmissvörun hesta á Íslandi. Einnig var kannað hvort hægt væri að nota ofnæmisprófið til að spá fyrir um hvaða hestar fengju sumarexem eftir útflutning. Prófaðir voru 130 hestar á Íslandi og 145 sem fluttir voru til Sviss. Hestar á Íslandi svöruðu hvorki bitmýi né smámýi í ofnæmisprófinu, og skipti engu máli hvort þeir hefðu verið á miklum bitmýssvæðum eða ekki. Því var niðurstaðan að ekki er hægt að nota ofnæmisprófið á hross hér á landi til að segja fyrir um hvaða hestar séu líklegir til að fá sumarexem eftir útflutning. Tíðni sumarexems í útfluttu hestunum var 51% og var sjúkdómurinn að meðaltali 2.5 ár að þróast. Ofnæmissvörun kom fyrst fram gegn smámýi en í kjölfarið mældist oft einnig svörun gegn bitmýi sem stafar líklega af krossvirkni.

Myndir: Á myndinni til vinstri má sjá eyra hests þakið bitmýi (Simulium vittatum) en það er landlægt hér á landi og bítur hesta eins og önnur spendýr. Eyra hestsins á hægri myndinni er blóðrisa eftir bitmýið. Bitmýið veldur ekki sumarexemi og eykur ekki hættuna á að hestar fái sumarexem eftir útflutning. Ekki eru þekktar aðferðir til að spá fyrir um hvaða hestar muni fá sumarexem erlendis.

Eftirfarandi vísindamenn tóku þátt í rannsókninni: Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, Stephan Scheidegger, Silvia Baselgia, Sigríður Jónsdóttir, Vilhjálmur Svansson, Sigríður Björnsdóttir og  Eliane Marti. Framleiðnisjóður landbúnaðarins og Svissneski rannsóknarsjóðurinn styrktu rannsóknina.

Sjá: Torsteinsdottir S, Scheidegger S, Baselgia S, Jonsdottir S, Svansson V, Björnsdottir S, Marti E. A prospective study on insect bite hypersensitivity in horses exported from Iceland into Switzerland. Acta Vet Scand. 2018 Nov 3;60(1):69. doi: 10.1186/s13028-018-0425-1.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is