Árleg spekigleði GPMLS framhaldsnámsprógrammsins um síðustu helgi

Mon, 08/10/2018 - 14:49 -- skb

Mikil ánægja var með árlega spekigleði GPMLS framhaldsnámsprógrammsins sem að þessu sinni var haldin á Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum helgina 5.-6. október. Dagskráin var þétt að vanda.

Á föstudeginum héldu tíu nemendur kynningu á verkefnum sínum með tússtöflu sér til stuðnings. Í kjölfarið sagði Eiríkur Sigurðsson líffræðingur og forstöðumaður Markaðs- og samskiptasviðs hjá Háskólanum í Reykjavík frá starfsferli sínum. Boðið var upp á kvöldmat og að honum loknum efnt til árlegrar "Helix pubquiz" spurningakeppni.

Á laugardeginum hélt Dr. Gundula Bosch kynningu á uppsetningu R3 doktorsnámsprógramminu við Johns Hopkins háskóla í Bandaríkjunum, en hún fjallaði ítarlega um hvernig ætti að "Train PhD students to be thinkers but not just specialists" í Nature snemma á þessu ári. Í kjölfarið ræddu forsvarsmenn framhaldsnámsins við Læknadeild og Líf- og umhverfisvísindadeild, þau Helga Ögmundsdóttir, Ingibjörg Harðardóttir, Margrét Helga Ögmundsdóttir og Arnar Pálsson, um uppsetningu og framtíðarsýn doktorsnámsins og hvað það þýddi að vera framhaldsnemi. Að lokum tóku allir þessir aðilar þátt í pallborðsumræðum ásamt Guðmundi H. Guðmundssyni og Ernu Magnúsdóttur. Góðar umræður sköpuðust sem nemendur tóku virkan þátt í.

Var það samdóma álit þátttakenda að spekigleðin hefði tekist einstaklega vel og væri mikilvægur hlekkur í starfi GPMLS og Lífvísindaseturs þar sem nemendur og kennarar koma saman, kynnast og ræða það sem helst liggur á hjarta og er ofarlega á baugi hjá nemendum og kennurum hverju sinni. Þetta var líkast til í síðasta sinn sem Guðrún Valdimarsdóttir skipulagði spekigleðina en hún hefur haft veg og vanda af henni allt frá árinu 2011.

Hér er tengill á myndir sem Sigurbjörg Þorsteinsdóttir tók á spekigleðinni.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is