Ofnæmisvakar framleiddir í byggi eru hentugir til þess að mæla ónæmissvörun hjá bólusettum hestum

Thu, 24/05/2018 - 13:11 -- skb

Nýverið birti rannsóknahópur Sigurbjargar Þorsteinsdóttur ónæmisfræðings og Vilhjálms Svanssonar dýralæknis á Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum rannsókn í ritinu í Veterinary Immunology and Immunopathology þar sem bornir voru saman ofnæmisvakar gegn sumarexemi í hestum framleiddir í þremur mismunandi tjáningarkerfum. Sumarexem í hrossum er IgE-miðlað ofnæmi gegn próteinum úr bitkirtlum smámýstegunda af ættkvíslinni Culicoides spp. Ofnæmið er vandamál í íslenskum hestum sem fluttir eru út en orsakavaldurinn lifir ekki á Íslandi. Á Keldum er verið að þróa ónæmismeðferð gegn sumarexemi. Til þess að mæla árangur ónæmismeðferðar þarf verulegt magn af hreinum ofnæmisvökum. Bornir voru saman hreinsaðir ofnæmisvakar framleiddir í þremur tjáningarkerfum; E. coli, skordýrafrumum og byggi. Prótein framleidd í E.coli eru oft erfið í hreinsun og mjög dýrt er að framleiða prótein í skordýrafrumum. Framleiðsla próteina í byggfræjum er hinsvegar hagkvæmur kostur, fræin eru náttúrulegur geymslustaður próteina og eru án óæskilegra efna sem auðveldar hreinsun próteinanna. Byggframleiddu próteinin voru jafngóð eða betri en þau sem framleidd voru í E. coli og skordýrafrumum bæði fyrir mælingu á mótefna- og boðefnasvari hesta sem höfðu verið bólusettir með samsvarandi próteinum framleiddum í E. coli. Verið er að rannsaka hvort hægt sé að nota próteinin til að skoða svörun hesta með sumarexem.

Heimild: Jonsdottir S, Stefansdottir SB, Kristinarson SB, Svansson V, Bjornsson JM, Runarsdottir A, Wagner B, Marti E, Torsteinsdottir S. Barley produced Culicoides allergens are suitable for monitoring the immune response of horses immunized with E. coli expressed allergens. Vet Immunol Immunopathol. 2018 Jul;201:32-37. doi: 10.1016/j.vetimm.2018.05.005. Epub 2018 May 14.

Rannsóknina styrktu Rannsóknasjóður Vísinda- og tækniráðs, Framleiðnisjóður landbúnaðarins, Eimskipafélagssjóður Háskóla Íslands, og Svissneski rannsóknarsjóðurinn.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is