Vísindasjóður Krabba­meins­félagsins veitir 55 milljónir í styrki

Fri, 18/05/2018 - 10:44 -- skb

Önnur úthlutun úr Vísindasjóði Krabbameinsfélags Íslands fór fram í dag. Heildarupphæð styrkja var 55,5 milljónir króna en hæsta styrkinn, 7,5 milljónir króna, hlaut Margrét Helga Ögmundsdóttir.

Auglýst var eftir umsóknum um styrki í byrjun febrúar og bárust alls 22 umsóknir. Eftir umfjöllun Vísindaráðs Krabbameinsfélagsins ákvað stjórn Vísindasjóðsins að veita að þessu sinni 13 umsóknum styrki.

Markmið Vísindasjóðs Krabbameinsfélags Íslands er að efla íslenskar rannsóknir á krabbameinum með árlegum fjárframlögum til rannsókna á orsökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga.  Sjóðurinn var formlega stofnaður í desember 2015 með framlögum frá Krabbameinsfélaginu og aðildarfélögum þess. Auk þess runnu minningarsjóður Ingibjargar Guðjónsdóttur Johnson og sjóður Kristínar Björnsdóttur inn í sjóðinn.

Formaður stjórnar Vísindasjóðs er Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á LSH og prófessor, en varaformaður er Magnús Karl Magnússon, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.

Myndir frá viðburðinum er að finna á Facebook síðu Krabbameinsfélagsins.

Á meðal 13 styrkþega tengjast 8 beint starfsemi Lífvísindaseturs Háskóla Íslands. Þau eru:

Margrét Helga Ögmundsdóttir sameindalíffræðingur hlýtur 7.500.000 kr. styrk fyrir verkefnið Hlutverk sjálfsátsgensins ATG7 í þróun krabbameina.
Lýsing: „Verkefnið gengur út á að skilgreina hlutverk frumusjálfsáts í myndun æxla. Við höfum greint erfðabreytileika í frumusjálfsátsgeni, sem hefur áhrif á krabbameinsáhættu. Styrkurinn er gríðarlega mikilvægur og mun gera okkur kleift að skoða virkni þessa erfðabreytileika í krabbameinsfrumum með það að leiðarljósi að bæta meðferðarmöguleika.“

 

 

 

 

Guðrún Valdimarsdóttir sameindalíffræðingur og lektor hlýtur 6.500.000 kr. styrk fyrir verkefnið Samspil TGF-beta-boðleiðarinnar og Thrombospondin-1, áhrif á samskipti æðaþels- og brjóstakrabbameinsfruma.
Lýsing á verkefninu: „Þótt batahorfur brjóstakrabbameinssjúklinga séu góðar þá steðjar aðalógnin af mögulegri meinvarpamyndun. Markmið verkefnisins er að skilja í þaula samspil æðaþels og brjóstakrabbameinsfruma á sameindafræðilegum grundvelli með tilliti til hinnar margslungnu TGF-beta boðleiðar. Sú þekking hefur gífurlegt gildi þegar litið er til meðferðarmöguleika með sértæku sameindalyfi fyrir brjóstakrabbameinssjúklinga til að fyrirbyggja myndun meinvarpa.“

 

 

Erna Magnúsdóttir sameindalíffræðingur og dósent hlýtur 6.000.000 kr. styrk fyrir verkefnið Sameindaferlar að baki BLIMP1- og EZH2-miðlaðri lifun í Waldenströmsæxlum.
Lýsing: „Um 3 milljónir einstaklinga eru greindir með Waldenströmssjúkdóm á hverju ári í heiminum, en sjúkdómurinn er ólæknandi hægfara krabbamein B-eitilfruma. Í þessu verkefni er ætlunin að kanna genastjórnun og mögulega samverkan stjórnpróteinanna BLIMP1 og EZH2 í Waldenströms-æxlisfrumum, en niðurstöður okkar benda til þess að þættirnir séu nauðsynlegir fyrir lifun frumanna og því möguleg lyfjamörk.“

 

 

 

 

Berglind Eva Benediktsdóttir lyfjafræðingur og dósent hlýtur 5.569.510 kr. styrk fyrir verkefnið Sérhönnuð exósóm í baráttunni gegn þríneikvæðum brjóstakrabbameinum.
Lýsing: „Exósóm eru nanóbólur sem frumur líkamans losa, m.a. til að flytja skilaboð sín á milli. Hægt er að hanna exósóm til flytja „stór“ lyf eins og líftæknilyf á fyrirfram ákveðinn verkunarstað í líkamanum. Verkefnið miðar að því að breyta brjóstaþekjufrumum þannig að þær losi sérhönnuð exósóm sem hafa sækni í þríneikvæðar brjóstakrabbameinsfrumur og eyði þeim án þess að ráðast á heilbrigðar frumur.“

 

 

 

 

Þórarinn Guðjónsson frumulíffræðingur og prófessor hlýtur 5.560.000 kr. styrk fyrir verkefnið Hlutverk non-coding RNAs í greinóttri formgerð og bandvefs­umbreytingu þekjuvefjar í eðlilegum og illkynja brjóstkirtli.
Lýsing á verkefninu: „Illkynja æxlisvöxtur í brjóstkirtli felur í sér að æxlisfrumur þurfa að skríða frá upprunastað sínum og meinvarpast til annara líffæra. Til þess að þetta geti gerst verða æxlisfrumurnar að umbreyta svipgerð sinni á þann hátt að þær öðlist aukinn skriðeiginleika. Í þessu verkefni er verið að rannsaka hvernig RNA-sameindir (noncoding RNA) stýra skriðeiginleikum fruma. Verkefnið mun auka skilning á því hvernig samspil próteina og ncRNA hefur áhrif á skrið fruma í þroskun og krabbameinsmyndun.“

 

 

Þorkell Guðjónsson sameindalíffræðingur hlýtur 5.000.000 kr. styrk fyrir verkefnið Hlutverk miR-190b í þróun brjóstakrabbameins.
Lýsing á verkefninu: „Brjóstakrabbamein sem tjá viðtaka fyrir kvenhormónið östrógen hafa almennt góðar batahorfur. Þó eru konur innan þessa hóps sem svara meðferð illa. Okkar niðurstöður gefa til kynna að yfirtjáning á ákveðinni RNA-sameind, miR-190b, hafi umtalsverð áhrif á batahorfur sjúklinga með östrógen-viðtaka jákvætt brjóstakrabbamein. Markmið þessa verkefnis er að skilgreina hvers vegna.“ 

 

 

 

 

Sævar Ingþórsson frumulíffræðingur hlýtur 4.000.000 kr. styrk fyrir verkefnið Ummyndunaráhrif HER2-yfirtjáningar í krabbameins­framvindu.
Lýsing á verkefninu: „Krabbameinsgenið HER2 er yfirtjáð í um þriðjungi brjóstakrabbameina, án þess að hlutverk þess í nýmyndun krabbameina sé að fullu þekkt. Markmið verkefnisins er að yfirtjá HER2 í frumum einangruðum úr heilbrigðum brjóstvef, og kanna áhrif yfirtjáningar með tilliti til frumuumbreytinga. Breytingar á frumunum verða rannsakaðar og æxlismyndunarhæfni í vefjum skoðuð.“

 

 

 

 

 

Helga M. Ögmundsdóttir læknir og prófessor hlýtur 3.790.000 kr. styrk fyrir verkefnið Skimun fyrir virkni nýsmíðaðra lífrænna tin- og rhodium-sam­banda gegn krabbameinsfrumum og skilgreining á verkunarmáta.
Lýsing á verkefninu: „Efnafræðilegir eiginleikar málma bjóða upp á fjölbreytta möguleika til smíða á efnasamböndum. Platínulyf gegna mikilvægu hlutverki í krabbameinsmeðferð en þau hafa alvarlegar aukaverkanir og krabbamein mynda ónæmi. Við rannsökum nýsmíðuð lífræn sambönd með tini og rhodium til þessað leiða í dagsljósið ný málmsamböd sem unnt yrði að þróa áfram sem krabbameinslyf.“

 

Nánari upplýsingar um alla styrkþega má finna á fréttasíðu Krabbameinsfélags Íslands

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is