Ása Bryndís á meðal fjögurra ungra vísindamanna sem heiðraðir voru á Landspítala 2018

Wed, 02/05/2018 - 15:54 -- skb

Fjórir ungir vísindamenn Landspítala 2018 voru heiðraðir á dögunum. Útnefning þeirra var kunngjörð 24. apríl á Vísindum á vordögum 2018, uppskeruhátíð vísindastarfs á Landspítala. Í þessum hópi var Ása Bryndís Guðmundsdóttir lyfjafræðingur og doktorsnemi sem stundar ná á Ónæmisfræðideild undir handleiðslu Jónu Freysdóttur og Ingibjargar Harðardóttur við Læknadeild Háskóla Íslands. Aðrir ungir vísindamenn sem voru heiðraðir voru og eru með Ásu Bryndísi á myndinni eru Bára Dís Benediktsdóttir læknir, Elva Rut Sigurðardóttir læknanemi og Ólafur Pálsson læknir.

Ása Bryndís Guðmundsdóttir lyfjafræðingur og doktorsnemi

Ég lauk meistarprófi frá lyfjafræðideild Háskóla Íslands árið 2011 og legg nú stund á doktorsnám í ónæmisfræði við læknadeild Háskóla Íslands undir leiðsögn Jónu Freysdóttur og Ingibjargar Harðardóttur. Doktorsverkefnið ber heitið „Utanfrumufjölsykrur blágrænþörunga úr Bláa Lóninu draga úr tjáningu angafrumna á SYK og CLEC7a“.  Markmið verkefnisins er að upplýsa verkunarmáta Bláa lónins sem gæti skýrt þann bata sem sórasjúklingar hljóta við böðun í lóninu. Cyanobacterium aponinum er blágrænþörungurinn sem er ríkjandi í vistkerfi lónsins og seytir utanfrumufjölsykru í lónið. Ása Bryndís einangraði utanfrumufjölsykruna og kannaði áhrif hennar á angafrumur, T frumur og hyrnisfrumur í rækt.  Niðurstöður verkefnisins gefa til kynna að fjölsykran hafi áhrif á allar lykilfrumurnar sem taka þátt í meingerð sóra og stuðli að bælingu þeirra. Þessari bælingu virðist vera miðlað í gegnum SYK boðleiðina. Auk þess virðist fjölsykran draga úr umritun á LL37 sem er einn af sjálfsofnæmisvökum í sóra. Þessar niðurstöður benda til að fjölsykrur í lóninu taki þátt í að miðla jákvæðum áhrifum böðunar í Bláa lóninu á húð sórasjúklinga. Samhiða rannsóknum sínum hefur Ása Bryndís leiðbeint íslenskum sem erlendum nemum sem koma á rannsóknastofuna í styttri verkefni.  

Nánar má lesa um aðra heiðursverðlaunahafa í frétt á vef Landspítala

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is