Kynna lyfjafyrirtæki á bandarískri nýsköpunarráðstefnu

Wed, 25/04/2018 - 19:51 -- skb

Sprotafyrirtækið Akthelia Pharmaceuticals, sem stofnað var á grundvelli rannsókna vísindamanna við Háskóla Íslands og Karolinska-stofnunina í Svíþjóð, er meðal ellefu fyrirtækja sem kynnt verða bandarískum fjárfestum á Science 2 Startup nýsköpunarráðstefnunni í Bandaríkjunum í dag. Akthelia, sem vinnur að þróun nýrra lyfja gegn bakteríusýkingum, er fyrsta erlenda fyrirtækið sem fær inngöngu á ráðstefnuna.

Akthelia grundvallast á rannsóknum þeirra Guðmundar Hrafns Guðmundssonar, prófessors við Líf- og umhverfisvísindadeild, Eiríks Steingrímssonar, prófessors við Læknadeild, og samstarfsfélaga þeirra, Rogers Strömberg og Birgittu Agerberth, prófessora við Karolinska-stofnunina í Svíþjóð.

Rannsóknir og starfsemi Akthelia hverfast í kringum svokölluð peptíð sem eru stuttar prótínkeðjur. Peptíð gegna lykilhlutverki í ónæmiskerfi spendýra, þar á meðal mannsins, en segja má að þau séu nokkurs konar innbyggð sýklalyf og fyrsta vörn mannsins gegn sýklum. Ákveðnar tegundir sýkla geta hins vegar dregið úr virkni þessara peptíða og þannig leitt til sýkinga í líkamanum. Vísindamenn Akthelia hafa hins vegar fundið efni sem örvar peptíðframleiðslu í líkamanum og styrkir þannig ónæmiskerfið. Vonir standa til að  hægt verði að nota efnin ein og sér eða með öðrum sýklalyfjum í baráttu við sýkingar, þar á meðal af völdum fjölónæmra sýkla sem eru vaxandi vandamál í heiminum.

Science 2 Startup ráðstefnan hefur það að markmiði að tengja saman annars vegar fjárfesta á sviði líftækni, lífvísinda, lyfjavísinda og heilbrigðisvísinda og hins vegar sprotafyrirtæki og vísindamenn við fremstu rannsóknastofnanir í heimi. Að ráðstefnunni standa fjárfestingasjóðirnir Atlas Venture, F-Prime Capital Partners and SV Health Investors sem allir leggja áherslu á fjárfestingar á fyrrgreindum sviðum. Ráðstefnan hefur verið haldin undanfarin ár og er áhersla lögð á kynningar á sprotafyrirtækjum sem þykja vinna að spennandi nýjungum í líf- og heilbrigðisvísindum. Aðeins örfá fyrirtæki eru valin hverju sinni. 

Fulltrúar um 200 fyrirtækja og vísindahópa frá fremstu rannsóknastofnunum heims sóttust eftir því að kynna verkefni sín í ár en aðeins 11 hlutu náð fyrir augum valnefndar, þar á meðal Akthelia sem er fyrsta erlenda fyrirtækið sem tekur þátt í ráðstefnunni. Eiríkur Steingrímsson mun kynna rannsóknir fyrirtækisins á ráðstefnunni en hana sækja m.a. fjárfestar,  forráðamenn öflugra sprotafyrirtækja í lífvísindum auk frammámanna innan lyfjageirans. Ráðstefnan fer fram við Broad-lífvísindasetrið í Cambridge í Massachusetts í Bandaríkjunum en að að setrinu standa háskólarnir Harvard og MIT.

Eiríkur segir markmiðið með kynningunni í Bandaríkjunum m.a. að mynda tengsl. „Þróun lyfja er að breytast hratt. Þarna verða helstu framámenn í nýsköpun og fjármögnun lyfjasprota og mjög áhugavert að hitta þá og kynna Aktheliu fyrir þeim,“ segir Eiríkur.

Akthelia grundvallast á rannsóknum þeirra Guðmundar Hrafns Guðmundssonar, prófessors við Líf- og umhverfisvísindadeild, Eiríks Steingrímssonar, prófessors við Læknadeild, og samstarfsfélaga þeirra, Rogers Strömberg og Birgittu Agerberth, prófessora við Karolinska-stofnunina í Svíþjóð.

Fréttin birtist á aðalsíðu Háskóla Íslands 24. apríl 2018

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is