Óttar Rolfsson hlýtur heiðursverðlaun Líffræðifélagsins

Sat, 28/10/2017 - 07:55 -- skb

Óttari Rolfssyni, lektor við læknadeild Háskóla Íslands og hópstjóri á Lífvísindasetri HÍ, var veitt heiðursverðlaun Líffræðifélagsins til ungs vísindamanns sem þykir hafa skarað fram úr í upphafi ferils síns við setningu Líffræðiráðstefnunnar á fimmtudaginn 26. október. Óttar er vel að þessum verðlaunum kominn enda er hann án efa einn af okkar sterkustu vísindamönnum af yngri kynslóðinni. 

Óttar lauk BS prófi í Lífefnafræði frá Háskóla Íslands árið 2001 og meistaragráðu í lífrænni efnafræði 2005 frá sama skóla. Óttar stundaði doktorsnám við Háskólann í Leeds frá 2005-2009 og fjallaði verkefni hans um sameindalíffræði veiruhjúps RNA veira með áherslu á samskipti RNA og próteina. Óttar hlaut “Wellcome trust” styrk til að stunda doktorsnámið en samkeppni um þessa styrktegund er mjög mikil. Að loknu doktorsnámi tók Óttar við stöðu nýdoktors á Rannsóknastofu í kerfislíffræði sem hafði þá nýtekið til starfa við Háskóla Íslands undir stjórn dr. Bernhards Pálssonar. Óttar varð lektor í lífefnafræði við læknadeild árið 2012 og hefur síðan þá gegnt lykilhlutverki innan Kerfislíffræðiseturs Háskóla Íslands, bæði sem vísindamaður og sem stjórnandi.  Núverandi rannsóknir Óttars snúa að því kortleggja efnaskipti í frumum líkamans og skilgreina þær breytingar sem eiga sér stað við sjúkdómsmyndun.

Óttar er öflugur vísindamaður sem hefur þrátt fyrir ungan aldur byggt upp stóran rannsóknahóp í kerfislíffræði innan Háskóla Íslands. Óttar er lífefnafræðingur að mennt og hefur sem slíkur alla tíð haft mikinn áhuga á efnaskiptum í frumum og vefjum. Í því sambandi hefur hann unnið að því að kortleggja flókið net efnaskipta með samspili efnagreininga og tölvunarfræði. Efnaskipti skipta gríðarlegu máli í viðhaldi vefja og í ljós hefur komið að margir sjúkdómar orsakast af eða leiða til afbrigðilegra efnaskipta. 

Á námsárunum hér heima var Óttar formaður félags efnafræði- og lífefnafræðinema og 2012-2014 var hann formaður Íslenska efnafræðifélagsins.  Óttar hefur á síðustu 5 árum leiðbeint sex nýdoktorum, þremur doktorsnemum og þremur meistaranemum auk fjölda BS og Erasmus nema. Á ráðstefnu Líffræðifélagsins nú um helgina mátti finna alls 6 erindi sem kynnt voru af nemendum hans og samstarfsfólki.

Óttar hefur birt fjölda vísindagreina, um 5-6 á ári allra síðustu ár, og hefur tilvitnanatíðni í verk hans aukist mjög mikið á síðustu árum. Margir rannsóknahópar innan Lífvísindaseturs Háskóla Íslands eiga í samstarfi við Óttar og hans fólk enda hefur kerfislíffræðin snertifleti inn í mörg svið lífvísinda. Undanfarin misseri hefur Óttar unnið ötullega að því að efla greiningargetu Kerfislíffræðiseturs sem mun nýtast mörgum rannsóknarhópum og auka enn frekar samstarfmöguleika, bæði hér heima og erlendis.

Óttar mun halda heiðurserindi um rannsóknir sínar í dag, laugardaginn 28. október kl. 12:45 í stofu 132 Öskju

Dagskrá ráðstefnunar er aðgengileg hér.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is