Mistúlkunarbreytingar í CHD1 geninu í einstaklingum með einhverfu og talstol

Mon, 04/09/2017 - 16:25 -- skb

Rannsóknarhópur Hans Tómasar Björnssonar við McKusick-Nathans Erfðafræðistofnunina  í Baltimore hefur fundið mistúlkunarbreytingar (e. missense variants) í CHD1 geni í sex einstaklingum með einhverfu, vöðvaslen (e. hypotonia) og talstol (e. speech apraxia). Rannsóknagrein um þetta efni hefur verið birt á heimasíðu Journal of Medical Genetics. CHD1 próteinið gegnir hlutverki í að auka litnisaðgengi (e. chromatin accessibility) í erfðamengi stofnfruma. CHD1 hefur hingað til ekki verið tengt neinu sérstöku heilkenni en þar sem allar stökkbreytingarnar eru mistúlkunarbreytingar hefur hópurinn leitt að því líkum að sjúkdómsferlið sé ekki einfalt tap á prótíni heldur að gallað prótín trufli starfsemi stórs prótínflóka. Þessar niðurstöður geta hjálpað við greiningu ógreindra einstaklinga með einhverfu og talstol en einnig hjálpa þær til við að skilja hlutverk utangenaerfða í sjúkdómsferli einhverfu og skyldra sjúkdóma. 

Myndir.  (A) Fundist hafa fimm óskyldir einstaklingar (Einstaklingar 2 og 3 eru skyldir) með mistúlkunarbreytingar í CHD1 geninu á varðveittum svæðum í prótínhluta gensins. R = Arginín, K = Lýsín, D = Asparssýra, G = Glýsín,  Q = Glutamín. (B) Staðsetning nýmyndaðra (e. de novo) breytinga á ATPasa flókanum (byggt á krystalbyggingu CHD1 frá gersvepp). Liturinn sýnir mismunandi mikilvæg svæði (sömu og í A). Það vakti athygli að Arg618Gln breytingin gerist á snertisvæði DNA og ATP, sem styður þá tilgátu að þessar breytingar trufli starfsemi prótínsins.

Sjúkdómurinn hefur verið nefndur Pilarowski-Bjornsson syndrome og hefur MIM númerið 602118 í OMIM gagnagrunninum.

Heimild: Pilarowski GO, Vernon HJ, Applegate CD, Boukas L, Cho MT, Gurnett CA, Benke PJ, Beaver E, Heeley JM, Medne L, Krantz ID, Azage M, Niyazov D, Henderson LB, Wentzensen IM, Baskin B, Sacoto MJG, Bowman GD, Bjornsson HT. Missense variants in the chromatin remodeler CHD1 are associated with neurodevelopmental disability. J Med Genet. 2017 Sep 2. pii: jmedgenet-2017-104759. doi: 10.1136/jmedgenet-2017-104759. [Epub ahead of print]

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is