Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch fyrst íslenskra kvenna til að hljóta aðal verðlaun á alþjóðlegri hátíð kvenna í nýsköpun - EIWIIN/GWIIN

Fri, 07/07/2017 - 13:06 -- skb

Nýsköpun íslenskra kvenna var hlutskörp á alþjóðlegri hátíð kvenna í nýsköpun sem fram fór á Ítalíu dagana 28-29. júní. Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch varð fyrst íslenskra kvenna til að hljóta aðal verðlaun hátíðarinnar sem Kvenfrumkvöðull ársins. Sandra er framkvæmdastjóri Platome Líftækni og aðjúnkt í lífeindafræði við Háskóla Íslands. Hún hefur síðustu ár þróað, ásamt Dr. Ólafi E. Sigurjónssyni, nýjar leiðir til að rækta frumur á rannsóknarstofum með því að nýta afgangs blóðflögur frá Blóðbankanum. Sandra er einnig í doktorsnámi við Háskóla Íslands.

Auk Söndru hlutu fjórar íslenskar konur verðlaun fyrir nýsköpun. Þær eru Hjördís Sigurðardóttir, stofnandi Aldin Biodome Reykjavík, Margrét Júlíana Sigurðardóttir, stofnandi Mussila, Dr. Þorbjörg Jensdóttir, stofnandi Hap+ og Sigrún Lára Shanko, listakona og teppagerðarfrumkvöðull.

Ísland hlaut flest verðlaun hátíðarinnar en fagleg dómnefnd fer yfir allar tilnefningar og tekur viðtöl við þáttakendur áður en niðurstaða er fengin. Árangur íslensku kvennanna er því mjög góður.

Verðlaunahafarnir sóttu EIWIIN/GWIIN hátíðina ásamt fulltrúum KVENN – félags kvenna í nýsköpun sem Elinóra Inga Sigurðardóttir leiðir.

Nánar var fjallað um málið á RÚV og Kjarnanum

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is