Margrét Helga meðhöfundur á nýrri grein í Science

Wed, 21/06/2017 - 10:30 -- skb

Nýverið birtist í tímaritinu Science greinin Transcriptional activation of RagD GTPase controls mTORC1 and promotes cancer growth en Dr. Margrét Helga Ögmundsdóttir sérfræðingur á Lífvísindasetri Háskóla Íslands tók þátt í rannsókninni. Þar er sjónum beint að virkni mTORC1 próteinflókans. mTORC1 flókinn myndast á yfirborði leysikorna og skynjar næringarástand í frumum. Þegar næringarefni eru næg, viðheldur mTORC1 boðum um uppbyggingu innan frumu, m.a. nýmyndun próteina og lípíða en hindrar niðurbrotsferlið sjálfsát. Við skertar næringaraðstæður afvirkjast mTORC1 og hægist því á uppbyggingarstarfi. Þess í stað hefst niðurbrot í gegnum sjálfsát innan frumunnar og nýtir hún niðurbrotsefnin til þess að viðhalda lágmarks nýbyggingu og orkumyndun.

Í greininni er því lýst hvernig umritunarstjórnun virkjast við sveltisaðstæður, og hefst myndun próteina mTORC1 flókans, sér í lagi myndun próteinsins RagD. RagD gegnir lykilhlutverki í að koma mTORC1 próteinflókanum saman á yfirborði leysikornsins þegar næringarefni eru til staðar. Þannig nýtir fruman sveltistímabil til þess að geta myndað mTORC1 flókann á skjótan hátt og því hafið uppbyggingu sem fyrst að loknu sveltisástandi. mTORC1 flókinn er ofvirkur í mörgum krabbameinsæxlum og viðhalda frumurnar því stöðugu uppbyggingarstarfi og hætta að skynja næringarumhverfi sitt á eðlilegan hátt. Slíkri ofvirkjun er m.a. viðhaldið vegna umritunarstjórnunar á RagD í mTORC1 próteinflókanum.

Rannsókninni var stýrt af Andrea Ballabio við Telethon Institue í Napólí, Ítalíu.

Heimild: Di Malta C, Siciliano D, Calcagni A, Monfregola J, Punzi S, Pastore N, Eastes AN, Davis O, De Cegli R, Zampelli A, Di Giovannantonio LG, Nusco E, Platt N, Guida A, Ogmundsdottir MH, Lanfrancone L, Perera RM, Zoncu R, Pelicci PG, Settembre C, Ballabio A. Transcriptional activation of RagD GTPase controls mTORC1 and promotes cancer growth. Science. 2017 Jun 16;356(6343):1188-1192. doi: 10.1126/science.aag2553.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is