Björn Rúnar á meðal þriggja verðlaunahafa á Landspítala

Mon, 08/05/2017 - 10:43 -- skb
Þrír vísindamenn við Háskóla Íslands og Landspítala tóku við viðurkenningum fyrir störf sín á árlegri uppskeruhátíð vísindastarfs á Landspítala, Vísindi á vordögum, sem fram fór 4. maí. Þetta eru þau Björn Rúnar Lúðvíksson og Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessorar við Læknadeild Háskólans, og Berglind Hálfdánsdóttir, lektor við Hjúkrunarfræðideild. Björn Rúnar er meðal hópstjóra á Lífvísindasetri HÍ
 
Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir ónæmisfræðideildar og prófessor í ónæmisfræði, hlaut viðurkenningu sem heiðursvísindamaður Landspítala 2017. Björn Rúnar, sem verið hefur prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands undanfarin tíu ár, hefur í rannsóknum beint sjónum sínum að tilurð og afleiðingum meðfæddra ónæmisgalla og stjórnun bólgusvars sjálfsónæmissjúkdóma en jafnframt að þróun stoðtækja í gegnum öpp og veflausnir til að styðja við og auðvelda greiningu, eftirlit og meðferð gigtar- og ónæmissjúkdóma. Rannsóknirnar hafa m.a. lagt grunn að einkaleyfum tengdum lyfjameðferð sjálfsónæmissjúkdóma og lagt grunninn að sprotafyrirtækjum í Bandaríkjunum og á Íslandi en Björn Rúnar er einn af aðalstofnendum sprotafyrirtækisins eXpeda ehf. sem er starfandi hér á landi.
 
Björn Rúnar hefur einnig verið afkastamikill við ritun fræðslu-, kennslu- og vísindagreina en eftir hann liggja um hundrað slík rit auk nokkur hundruð fyrirlestra og ágripa í tengslum við innlendar og erlendar vísindaráðstefnur.  Þá hefur hann leiðbeint fjölda lækna-, líffræði-, lífeindafræði-, hjúkrunarfræði- og líftölvunarfræðinema í rannsóknarnámi og gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum sem snúa að sérgrein hans innan- og utanlands.
 
 
Á Vísindum á vordögum voru einnig veittir styrkir samtals að upphæð nærri 70 milljónir króna til vísindamanna við Landspítala og Háskóla Íslands en lesa má um styrktar rannsóknir á heimasíðu Landspítalans.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is