Ný rannsókn sýnir fram á breytt efnaskipti við bandveflíka umbreytingu í brjóstaþekju

Wed, 29/03/2017 - 16:03 -- skb

Vísindamenn hjá Kerfislíffræðisetri Háskóla Íslands, þau Skarphéðinn Halldórsson, Neha Rohatgi og Óttar Rolfsson birtu nýverið greinina Metabolic re-wiring of isogenic breast epithelial cell lines following epithelial to mesenchymal transition í tímaritinu Cancer Letters. Greinin var unnin í nánu samstarfi við Stofnfrumurannsóknarhóp Þórarins Guðjónssonar ásamt norskum samstarfsmönnum.

Greinin lýsir þeim efnaskiptabreytingum sem verða á þekjuvefsfrumum brjósta við bandvefslíka umbreytingu. Meirihluti brjóstakrabbameina á upptök sín í þekjuvef en æxlin hafa tilhneigingu til þess að undirgangast svipgerðarbreytingu í átt að bandvefsfrumum (epithelial to mesenchymal transition - EMT). Þessar frumur geta í framhaldinu skriðið út frá móðuræxlinu og valdið meinvörpum annars staðar í líkamanum. Lengi hefur verið vitað að efnaskipti krabbameinsfruma eru í grundvallaratriðum ólík efnaskiptum heilbrigðra fruma en lítið hefur verið fjallað um hvaða áhrif svipgerðarbreytingar í æxlisfrumum hafa á efnaskipti.

Efnaskipti þekjufruma og bandvefslíkra fruma voru mæld með massagreiningu á frumuæti. Þau gögn ásamt RNA tjáningargögnum voru notuð til að smíða tölvulíkön af efnaskiptum hvorrar svipgerðar. Í ljós kom að efnaskipti bandvefslíkra fruma voru um margt ólík efnaskiptum þekjuvefsfruma. Efnaskipti þeirra voru almennt hægari og hærra hlutfall orku var fengið frá bruna á fitu- og amínósýrum. Hægt var að spá fyrir um gen sem talin eru nauðsynleg til að viðhalda þekjuvefs- eða bandvefslíkri svipgerð. Meðal niðurstaða úr því er að LAT1 amínósýruferjan gegnir veigamiklu hlutverki í að viðhalda bandveflíkri svipgerð og að tjáning á LAT1 er hlutfallslega hærri í ífarandi krabbameinum.

Myndirnar sýna breytingar á dreifingu og virkni hvatbera, en það er meðal þess sem fannst við rannsóknina.

Heimild:

Halldorsson S, Rohatgi N, Magnusdottir M, Choudhary KS, Guðjónsson T, Knutsen E, Barkovskaya A, Hilmarsdottir B, Perander M, Mælandsmo GM, Gudmundsson S, Rolfsson Ó. Metabolic re-wiring of isogenic breast epithelial cell lines following epithelial to mesenchymal transition. Cancer Lett. 2017 Mar 18. pii: S0304-3835(17)30183-0. doi: 10.1016/j.canlet.2017.03.019. [Epub ahead of print]

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is