Styrkja innviði rannsókna með tilraunadýr

Fri, 24/03/2017 - 16:44 -- skb
Háskóli Íslands, Lífvísindasetur skólans, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Vísindagarðar Háskóla Íslands og fyrirtækið ArcticLAS hafa undirritað samning um samstarf sem hefur það markmið að styrkja innviði rannsókna með tilraunadýr, bæði stór og smá. Jafnframt er ætlunin að koma á fót nýjum aðferðum sem falla vel að því vísindastarfi sem stundað er á Lífvísindasetri og á Keldum og snerta slíkar tilraunir. 
 
Aðstaða fyrir tilraunadýr er mikilvægur þáttur í innviðauppbyggingu lífvísinda á Íslandi enda eru tilraunir á dýrum í mörgum tilfellum forsenda þess að vísindamenn geti prófað vísindatilgátur sínar. ArcticLAS sérhæfir sig í vinnu með smádýr (mýs og rottur) og aðstaða fyrirtækisins er mun betri en núverandi aðstaða Háskóla Íslands. Uppbygging á slíkri aðstöðu er dýr og krefst sérhæfðra starfskrafta og með samstarfinu vilja aðilar samningsins stuðla að uppbyggingu enn fullkomnari tilraunadýaraaðstöðu en nú er fyrir hendi hér á landi með það fyrir augum að hámarka árangur í rannsóknum með tilraunadýr.  
 
Samkvæmt samningnum mun Háskóli Íslands, fyrir hönd Lífvísindaseturs, gera þjónustusamning við ArcticLAS um að fyrirtækið annist umsýslu með tilraunadýr sem notuð verða í rannsóknum við Lífvísindasetur en fyrirtækið hefur byggt upp góða aðstöðu til þess allt frá stofnun þess árið 2009. Jafnframt er gert ráð fyrir að Tilraunastöðin að Keldum geri þjónustusamning við ArcticLAS um faglegt samstarf varðandi dýrahald og framkvæmd dýratilrauna á Keldum.
 
ArcticLAS var stofnað af fyrrverandi starfsmönnum Íslenskrar erfðagreiningar og er byggt á fyrrverandi tilraunadýradeild þess fyrirtækis. Fyrirtækið hefur á leigu um 500 fermetra húsnæði að Krókhálsi með búnaði og tækjakosti fyrir bæði innlenda og erlenda aðila sem stunda rannsóknir á músum og rottum. Umhirða og eftirlit með dýrunum er á verksviði ArcticLAS sem einnig aðstoðar við uppsetningu og framkvæmd tilrauna, leyfisumsóknir, innflutning dýra o.fl. 
 
Lífvísindasetur Háskóla Íslands hefur starfað frá árinu 2011 og er vettvangur fyrir bæði vísindamenn Háskóla Íslands, annarra háskóla og vísindastofnana til samstarfs á sviði lífvísinda. Rannsóknarhópar innan Lífvísindaseturs stunda m.a. rannsóknir á sviði þroskunarfræði, líffræði krabbameina, starfsemi og sérhæfingu stofnfrumna, taugalíffræði, stjórnun genatjáningar, erfðalækninga, næringar- og matvælafræði, ónæmisfræði auk ýmissa sviða lífeðlisfræðinnar. Aðgengi að tilraunadýraaðstöðu er forsenda þess að rannsóknir margra vísindamanna Lífvísindaseturs eflist og dafni.
 
Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum á sér langa og merka sögu. Keldur búa yfir mikilli sérþekkingu á líffræði og meinafræði dýra og hafa verið í fararbroddi er kemur að rannsóknum á dýrum. Tilraunastöðin hefur einnig annast kennslu og staðið fyrir réttindanámskeiðum um notkun tilraunadýra í vísindarannsóknum, á seinni árum m.a. í samstarfi við ArcticLas og Lífvísindasetur.  Á Keldum hafa um árabil einnig verið viðamiklar rannsóknir og tilraunir með stærri dýr, svo sem hross, sauðfé, svín, hænsfugla og kanínur. Með samningnum aukast möguleikar á að tengja Keldur og starfsemi ArcticLAS betur saman sem mun efla starfsemi beggja aðila.
 
Vísindagarðar Háskóla Íslands voru stofnaðir árið 2004 til að efla samstarf fyrirtækja, rannsóknastofnana og háskóla um rannsóknir og nýsköpun. Samningurinn, sem nú er gerður, fellur undir innviðauppbyggingu Vísindagarða en eitt af markmiðum garðanna er að skapa kjöraðstæður fyrir fyrirtæki og stofnanir til að stunda rannsóknir sem geta nýst til atvinnusköpunar. 
 
Samningurinn, sem er til þriggja ára, var undirritaður í Aðalbyggingu Háskóla Íslands fimmtudaginn 23. mars. Það gerðu Halldór Jónsson, sviðsstjóri Vísinda- og nýsköpunarsviðs Háskóla Íslands, Þórarinn Guðjónsson, stjórnarformaður Lífvísindaseturs HÍ, Bergþóra Eiríksdóttir, stjórnarformaður ArcticLAS, Sigurður Ingvarsson, forstöðumaður Tilraunastöðvar HÍ í meinafræði að Keldum, og Eiríkur Hilmarsson, framkvæmdastjóri Vísindagarða Háskóla Íslands. Sérstök nefnd, sem skipuð er einum fulltrúa frá hverjum samningsaðila, mun greina frekari tækifæri til samstarfs í rannsóknum, tilraunum, kennslu og sókn í samkeppnissjóði.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is