Jóna Freysdóttir á meðal þriggja prófessora sem fengu hvatningastyrk Landspítalans

Fri, 04/12/2015 - 10:14 -- skb
Þrír prófessorar við Læknadeild Háskóla Íslands, sem jafnframt starfa við Landspítala – háskólasjúkrahús, tóku við fimm milljóna króna hvatningarstyrki hver úr Vísindasjóði Landspítala við athöfn í Hringsal spítalans 1. desember síðast liðinn. Styrkirnir renna til rannsóknahópa sem þau veita forystu. 
 
Þetta er í sjötta sinn sem styrkir af þessu tagi eru veittir sterkum rannsóknarhópum á spítalanum sem þegar hafa öðlast alþjóðlega viðurkenningu. Að þessu sinni bárust sjö umsóknir og tóku forystumenn þriggja rannsóknarhópa við styrkjum. Það eru þau Gunnar Guðmundsson lungnalæknir, Jóna Freysdóttir, forstöðunáttúrufræðingur og prófessor í ónæmisfræði, og Runólfur Pálsson, yfirlæknir nýrnalækninga.
 
Jóna Freysdóttir, forstöðunáttúrufræðingur á Landspítala og prófessor í ónæmisfræði auk þess að vera stjórnarmaður og virkur þátttakandi í Lífvísindasetri HÍ, hefur ásamt samstarfsfólki sínu rannsakað áhrif ómega-3 fjölómettaðra fitusýra og annara valdra náttúruefna á myndun og hjöðnun bólgu. Samstarfsaðilar Jónu starfa við ýmsar stofnanir  og fyrirtæki innan lands auk þess að starfa í Hollandi, Svíþjóð og Bandaríkjunum.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is